Vot gróðursetning

Þriðjudaginn 2. maí fór hópur væntanlegra útskriftarnemenda í hefðbundna gróðursetningu ásamt nokkrum kennurum. Að þessu sinni var farið í Vatnsholt á svæði Skógræktarfélags Suðurnesja þar sem nemendur settu niður nokkrar plöntur. Það var Kristján Bjarnason frá Reykjanesbæ sem leiðbeindi hópnum og fræddi nemendur um leið um plönturnar og svæðið. Veðrið hefði getað verið betra og hópurinn dreif þess vegna plönturnar niður á mettíma. Þessi hefð hefur verið við lýði í fjölda ára að útskriftarnemendur gróðursetji plöntur til minningar um veru sína í skólanum. Vonandi eiga þessar plöntur eftir að vaxa og dafna i framtíðinni.