Aðgerðir til að bæta nám í stærðfræði

  1. Mættu í alla tíma og vertu búin/n að renna yfir efnið sem farið verður yfir í tímanum.
  2. Hafðu öll gögn tilbúin þegar kennslustundin hefst. Vertu búin/n að fara á salerni og ekki yfirgefa kennslustundina fyrr en kennarinn fer út.
  3. Glósaðu niður þegar kennari er með innlögn og reiknaðu öll dæmin án þess að skoða svörin. Þú ert að prófa getu þína með því að reikna og skilja án þess að hafa svarið við hendina. Þegar þú ert búin/n að reikna öll dæmin ferðu yfir hvort þú hafir skilið efnið rétt og hvort þú hafir fengið rétta útkomu. Nýttu þér kennarann í kennslustundinni og spurðu ef eitthvað er óljóst. Hér skiptir athygli mestu máli.
  4. Ef þú kemst ekki yfir allt efnið í kennslustundinni er mjög mikilvægt að klára alla útreikninga heima. Mjög mikilvægt að reikna öll dæmin, sýna útreikninga og vanda frágang. Stærðfræði er æfing, æfing og æfing.
  5. Stærðfræði byggir á reglum og formúlum og þess vegna er það lykilatriði að skilja hvað verið er að gera í hverri reglu. Ef spurt er um…. þá nota ég þessa reglu og svo framvegis.
  6. Eitt byggir á öðru í stærðfræði og þess vegna er mjög mikilvægt að tileinka sér þessi vinnubrögð þar sem framhaldið verður erfitt ef grunninn vantar.
  7. Öll gögn sem kennari setur inn á Innuna þar með talin verkefni og próf er mjög mikilvægt að opna og reikna eða fara yfir verkefni og próf til að skilja betur. Mikilvægt er að spyrja kennarann strax þegar ekki næst skilningur á ákveðnum atriðum svo hægt sé að halda áfram og byggja ofan á þekkinguna.
  8. Þessi atriði byggja öll á því að þú sem nemandi sért tilbúinn að takast á við námið og einbeitt/ur í að ná árangri.
  9. Til að möguleiki sé á að ná þessum ofantöldum markmiðum þarf að einbeita sér og allt utanaðkomandi áreiti þarf að setja til hliðar og útiloka á meðan náminu stendur. Best er að slökkva á símum og hafa þá ofan í tösku, útiloka skvaldur og einbeita sér að því sem skiptir máli það er að fylgjast með og reikna.
  10. Þegar kemur að prófum þarf að reikna aftur það sem gert hefur verið til að æfa sig enn frekar og rifja upp. Upprifjunarefni sem sett er á Innuna er mjög mikilvægt að skoða og reikna tímanlega fyrir hvert próf. Jöfn vinna yfir tímabil hjálpar við að festa upplýsingar í langtímaminni og verður endurheimt upplýsinga við upprifjun öflugri og vænlegri til árangurs.
  11. Ekki er vænlegt til árangurs að byrja að læra fyrir próf kvöldið áður en prófið er. Undirbúningur þarf að byrja strax og með það í huga að markmiðið sé að fara í próf úr efninu og sýna á prófinu þekkinguna sem nemandinn hefur aflað sér með æfingunni. Æfingin skapar meistarann gildir um nám í stærðfræði.