Námsmat

Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er boðið upp á mjög fjölbreytt nám og er námsmatið því mismunandi. Námsmat byggir á þekkingu, leikni og hæfni nemandans í áfanganum.

 • Í byrjun hverrar annar kemur tilhögun námsmats fram í kennsluáætlun í hverjum áfanga. Í kennsluáætluninni koma fram öll verkefni sem nemandi þarf að skila og hafa vægi til námsmats.
 • Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 10 felur í sér að 95-100% markmiða hafi náðst og einkunnin 5 felur í sér að 45-54% markmiða hafi náðst. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Ef nemandi nær ekki einkunninni 5 telst hann ekki hafa náð áfanganum og getur ekki tekið næsta áfanga sem kemur á eftir.
 • Í lokaprófsáföngum þar sem lokapróf gildir t.d. 40% gildir vinnueinkunn 60% á móti til lokaeinkunnar. Í símatsáföngum fer námsmat fram jafnt og þétt alla önnina. Lokaeinkunn er þá reiknuð eftir vægi verkefna sem koma fram í kennsluáætlun.
 • Vinnueinkunn getur verið til komin með ýmsum hætti, s.s. með könnunarprófum, heimaprófum, munnlegum prófum, ýmiss konar verkefnum, jafningjamati, sjálfsmati, ritgerðum, skýrslugerð, ferilmöppu, vettvangsnámi og verklegum æfingum svo eitthvað sé nefnt.
 • Námsmat getur verið mismunandi eftir námsgreinum og áföngum og er það í höndum kennara að tryggja að samræmis sé gætt í námsmati innan áfanga og að kennarar hafi samvinnu um yfirferð prófa þar sem það er hægt.
 • Að jafnaði er einkunnagjöf í tölum en á því eru einstaka undantekningar og er þá áfanginn metinn með Staðið/Fall í staðinn fyrir tölustaf.
 • Tímasetningar skilaverkefna og prófa koma fram í kennsluáætlun. Kennari skal tilkynna um skiladagsetningu stærri verkefna og prófa með a.m.k. fimm virkra daga fyrirvara. Kennari skal skila endurgjöf verkefna og prófa eigi síðar en tveimur vikum eftir skiladag.
 • Miðannarmat er gefið um miðja önn. Það er ekki formlegt námsmat heldur mat kennarans á stöðu nemenda og í hvaða árangur stefnir að óbreyttu. Eðlilegt er að nota allan skalann til þess að nemendur fái raunsanna leiðsögn um stöðu sína. Tilgangurinn er að senda nemendum skilaboð um það hvort þeir eru á réttri leið eða þurfi að taka sig á.
  Einkunnaskali í miðannarmati:
  A = Afar góð frammistaða
  G = Góð frammistaða
  V = Viðunandi frammistaða
  Z = Ófullnægjandi frammistaða
 • Ef nemandi verður uppvís að rit- eða hugverkastuldi við verkefnaskil, hvort sem um er að ræða hluta úr verkefni/hugverki eða verkefni/hugverk í heild, fær nemandi verkefnið ekki metið. Ef tveir eða fleiri nemendur skila sömu úrlausn á verkefni/prófi má gera ráð fyrir að enginn þeirra fái þau metin til einkunnar.
 • Við birtingu námsmats eiga nemendur þess kost að skoða verkefna- og prófúrlausnir sínar. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf er hún leiðrétt. Komi upp ágreiningur um námsmat skal vísa honum til aðstoðarskólameistara. Nemendur hafa rétt á að matinu sé vísað til úrskurðar hlutlauss aðila.

Síðast breytt: 12. september 2023