Skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Fjölbrautaskóla Suðurnesja

1. grein

Sjóðurinn er stofnaður samkvæmt lögum nr 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá. Heimili hans og varnarþing er í Reykjanesbæ.

2. grein

Sjóðurinn er stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni f.v. kaupfélagsstjóra er var fyrsti formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn er stofnaður í tilefni af 30 ára afmæli skólans og 60 ára afmæli Kaupfélags Suðurnesja.

Sjóðurinn skal heita Styrktarsjóður Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

3. grein

Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því:

  • Að styrkja nemendur skólans til náms
  • Að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda
  • Að veita útskriftarnemum viðurkenningar fyrir góðan árangur í námi og starfi.

4. grein

Stofnfé sjóðsins er 10.000.000 kr. er skiptist þannig að Kaupfélag Suðurnesja greiðir 5.000.000 og Gunnar Sveinsson 5.000.000 kr. Varsla og ávöxtun sjóðsins skal vera í Sparisjóði Keflavíkur og ávaxtast með tryggilegum hætti.

5. grein

Gjafafé og annað það sem sjóðnum áskotnast sameinast stofnfé hans.

6. grein

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn. Skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja er sjálfkjörinn og er hann formaður. Aðrir stjórnarmenn eru tilnefndir af stofnendum sjóðsins einn frá hvorum aðila. Láti stjórnarmaður af störfum skal nýr tilnefndur af stofnendum sjóðsins. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á fjárvörslu, færslu reikninga og skýrslugerð. Fjölbrautaskóla Suðurnesja er falin framkvæmd þessara þátta. Reikingsár sjóðsins er almanaksárið. Reikninga sjóðsins skal endurskoða af löggiltum endurskoðanda sem stofnendur velja og leggja þá fram á aðalfundi sjóðsins.

7. grein

Úthlutun sjóðsins fer eftir reglum sem stjórn sjóðsins setur og skal afhending viðurkenninga fara fram á skólaslitum á vorönn. Halda skal gerðabók um starfsemi sjóðsins þar sem skráðir eru reikningar sjóðsins og önnur starfsemi s.s. úthlutaðir styrkir og gjafir til sjóðsins.

8. grein

Úthlutun úr sjóðnum skal aldrei vera meiri en svo að verðgildi sjóðsins rýrni ekki.

9. grein

Breytingar á skipulagsskrá þessari skulu samþykktar af stofnaðilum og lagðar fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki. Verði sjóðurinn lagður niður skal það gert í samráði við stofnaðila og sjóðurinn notaður í þágu Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

10. grein

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari.