Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Stefnuyfirlýsing
Það er skýr stefna Fjölbrautaskóla Suðurnesja að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum. Allra leiða verður leitað til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Fjölbrautaskóli Suðurnesja á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og samvinnu allra til að góður árangur náist í skólastarfinu.

Forvarnir gegn einelti

 • Allir nemendur skulu fræddir um stefnu skólans um viðbrögð við einelti, t.d. í umsjónartímum, á nýnemadegi og annars staðar þar sem það á við: Einelti og ofbeldi er ekki liðið
 • Starfsmenn skulu fræddir um stefnu skólans um viðbrögð við einelti.
 • Nemendur og starfsmenn séu hvattir til að láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi. Öllum á að geta liðið vel í skólanum og njóta virðingar sem einstaklingar
 • Nemendur og starfsmenn séu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita
 • Allir foreldrar/forráðamenn fái upplýsingar um stefnu skólans í eineltis- og ofbeldismálum í upphafi skólagöngu barna sinna og séu hvattir til að leggja skólanum lið
 • Kanna skal líðan nemenda reglulega
 • Áætlun um viðbrögð við einelti verði kynnt reglulega


Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekin áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi.

 • Andlegt einelti felst m.a. í stríðni, útilokun, hótunum eða höfnun
 • Líkamlegt einelti getur verið barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi
 • Munnlegt ofbeldi getur m.a. falist í uppnefnum, stríðni, hvísli um fórnarlambið eða upplognum sögum
 • Kynferðisofbeldi getur verið þegar einhver káfar á þér eða fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera. Kynferðisleg áreitni með orðum og látbragði er líka ofbeldi
 • Efnislegt ofbeldi er m.a. þegar eigum er stolið eða eyðilagðar
 • Félagslegt ofbeldi er þegar þolandinn er t.d. skilinn út undan eða þarf að þola svipbrigði, augngotur eða þögn
 • Rafrænt ofbeldi er t.d. illkvittin skilaboð á samfélagsmiðlum, þolandi er útskúfaður frá hópum á netsíðu eða tekinn út af vinalista og myndum eða myndböndum er dreift

Um er að ræða einelti ef einstaklingi líður illa vegna þess að hann verður endurtekið fyrir einhverju ofantöldu eða annarri niðurlægjandi áreitni.
Ofbeldi er vísvitandi meiðandi hegðun eða vítavert tillitsleysi þar sem einstaklingur eða hópur beitir valdi sem meiðir eða niðurlægir aðra.

Að þekkja einelti
Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.
Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn...

 • vill ekki fara í skólann
 • kvartar undan vanlíðan á morgnana
 • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka
 • fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur
 • missir sjálfstraustið
 • einangrast félagslega
 • neitar að segja frá hvað amar að
 • verður árásargjarn og erfiður viðureignar
 • sýnir ýkt viðbrögð við áreiti
 • vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum


Ábyrgð
Allir þeir sem verða vitni að, vita af eða hafa sterkan grun um einelti skulu láta vita af því eða bregðast við á annan hátt.
Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum skal fylgja ferli eineltismála við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.Einnig er hægt að tilkynna um einelti hér.

Síðast endurskoðað í febrúar 2022.