Prófareglur

Lokaprófum í próftöflu í annarlok hefur fækkað verulega undanfarin ár. Ef námsmat er hinsvegar þannig að um lokapróf er að ræða þá gilda sérstakar prófreglur sem ber að fara eftir. Sjá hér að neðan:

Nemendur skulu mæta í próf það tímanlega að þeim gefist tími til að finna rétta stofu áður en hringt er til prófs. Veikindi og önnur forföll skal tilkynna á skrifstofu skólans áður en próf hefjast eða eins fljótt og kostur er. Nauðsynlegt er að skila veikindavottorði á skrifstofuna við fyrsta tækifæri. Nemendur geta ekki tekið sjúkrapróf á sjúkraprófsdag nema hafa áður skilað vottorði..

- Í upphafi prófs skulu nemendur ganga úr skugga um:

 • að prófgögn þeirra séu rétt.
 • að þeir séu í réttum stofum.
 • að á borðum þeirra séu ekki önnur hjálpargögn en þau sem tilgreind eru á forsíðu prófsins.
 • að þeir hafi skilið eftir allt sitt hafurtask svo sem pennaveski, poka, töskur og bækur fyrir utan stofuna eða í umsjá yfirsetukennara. Sérstaklega er vakin athygli á því að ekki er leyfilegt að vera með GSM-síma í prófi.
 • að þeir hafi þvegið alla þá líkamsparta sem þeir hafa notað sem rissblöð.

Nemendur þurfa að hafa með sér skilríki, með mynd, í próf. Þegar komið er í prófstofu byrja nemendur á að fylla út viðverumiða og setja þá á borðið ásamt skilríkjum.Mikilvægt að gera þetta áður en byrjað er á prófinu. Yfirsetufólk safnar þessum miðum saman.

 • Yfirsetukennarar mega ekki svara neinum spurningum varðandi sjálf prófin en þeir kalla til kennara viðkomandi ef þörf krefur.
 • Nemendum er óheimilt að ávarpa hver annan í prófum. Þeir eiga að gefa þeim kennurum sem yfir sitja merki með handauppréttingu ef þeir þurfa á hjálp að halda. Einu gildir hvort verið er að fá eitthvað að láni eða athuga gang tímans.
 • Nemendum er óheimilt að yfirgefa prófstofu fyrsta klukkutímann.
 • Nemendum ber að yfirgefa prófstofu tafarlaust er próftíma lýkur og skilja ÖLL blöð eftir á borðunum.
 • Nemendur sem mæta of seint til prófs verða að yfirgefa prófstofur á sama tíma og aðrir. Undanþágu frá þessu ákvæði geta prófstjórar veitt.
 • Verði nemandi uppvís að prófsvikum eða broti á prófreglum er prófstjóri kallaður til og ákvarðar hann hvort nemandanum skuli vísað frá prófi. Skólaráð ákvarðar um frekari viðurlög.
 • Ef nemandi á að vera í tveimur prófum samtímis á hann að tilkynna það yfirsetumanni sem fylgir honum upp á kennarastofu í lok prófsins. Þar dvelur hann í góðu yfirlæti þar til seinni prófin hefjast.