Fjölbrautaskóli Suðurnesja er heilsueflandi framhaldsskóli. Heilsuefling er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemenda skólans. Markmiðið er að bæta heilsu og líðan þeirra sem starfa og nema við skólann. Stefnt er að því að tryggja eins góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu og unnt er. Jafnframt eru nemendur og starfsmenn hvattir til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi góðrar heilsu. Heilsustefnunni er ætlað að hafa áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum.
Þeir áhersluþættir sem stefnan tekur til eru:

Næring og hollusta
Markmið að:
- Bjóða upp á hollan og næringarríkan mat í mötuneyti nemenda og starfsmanna í samræmi við manneldismarkmið landlæknisembættisins.
- Gildi góðrar næringar sé haldið á lofti og vitund nemenda um gildi næringar efld.
- Gott aðgengi sé að drykkjarvatni.
- Takmarka aðgengi að sætindum.
- Veitingar á fundum á vegum skólans taki mið af fjölbreytni og hollustu.
- Matur í mötuneyti sé eldaður á staðnum.
Leiðir að markmiðum:
- Samvinna og samráð við starfsfólk mötuneytisins.
- Starfsemi mötuneytis taki mið af manneldismarkmiðum landlæknisembættisins.
- Sætir gosdrykkir og sælgæti eru ekki seld innan veggja skólans, einungis er boðið uppá sætabrauð eftir hádegi.
- Boðið er uppá ókeypis hafragraut og lýsi á hverjum morgni.
- Vatnsvél verði staðsett á hverri hæð.
- Bjóða starfsmönnum upp á ávexti af og til.
- Matseðill vikunnar verði birtur á heimasíðu skólans, ásamt verðskrá.
Hreyfing
Markmið að:
- Hvetja til aukinnar hreyfingar meðal starfsmanna og nemenda skólans.
- Efla meðvitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu.
- Leggja áherslu á að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni.
- Hvetja nemendur og starfsfólk til að nota heilsueflandi ferðamáta til og frá skóla eftir því sem kostur er.
Leiðir að markmiðum:
- Bjóða uppá fjölbreytt úrval íþrótta og hreyfitengdra áfanga á hverri önn.
- Hvetja nemendur og starfsfólk til að hreyfa sig og stunda íþróttir.
- Styrkja og standa fyrir ýmsum hreyfitengdum uppákomum, t.d. þátttaka nemenda í ýmsum framhaldsskólamótum í íþróttum, Lífshlaupinu, átakinu hjólað í vinnuna.
- Birta fréttir á heimasíðu skólans þegar starfsmenn og/eða nemendur standa sig vel í íþróttum eða hreyfingu.
Geðrækt
Markmið að:
- Nemendur og kennarar tileinki sér gott og heilsusamlegt vinnulag.
- Stutt sé við nemendur sem eiga við geðræna eða félagslega erfiðleika að stríða.
- Hlúð sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna í skólastarfinu.
- Allir leggi sitt af mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum í anda einkunnarorðanna sem eru: virðing, samvinna, árangur.
- Nemendur og starfsfólk sýni hvert öðru virðingu og umburðarlyndi.
Leiðir að markmiðum:
- Efla skilning á gildi andlegrar heilsu og þeim þáttum sem ber að leggja áherslu á í forvörnum gegn sjúkdómum að geðrænum toga.
- Leggja áherslu á jákvæð viðhorf og jákvæðan starfsanda.
- Vekja athygli á eineltisstefnu skólans bæði fyrir nemendur og starfsfólk.
- Geðorðin 10 eru sýnileg í skólanum sem og annarskonar upplýsingar er varða geðheilbrigði.
Lífsstíll
Markmið að:
- Auka meðvitund um gildi heilsuræktar í sem víðustum skilningi.
- Skólinn sé tóbaks-, áfengis-, rafsígarettu- og vímuefnalaus vinnustaður.
- Stuðla að virku forvarnastarfi innan skólans.
- Efla samfélags- og umhverfisvitund nemenda.
Leiðir að markmiðum:
- Efla þekkingu og skilning á mikilvægi góðra svefnvenja.
- Efla þekkingu á mikilvægi kynheilbrigðis.
- Nemendafélagið tekur virkan þátt í því að skólinn og skemmtanir á hans vegum séu áfengis- og vímuefnalausar, m.a. með edrú-potti, reglu um að ölvun ógildir miðann og að tóbak og rafsígarettur séu gerðar upptækar.
- Forvarnafulltrúi er virkur í að miðla upplýsingum um skaðsemi vímuefna og mögulegar leiðir til aðstoðar ef þörf er á.
- Fylgja fast eftir banni við neyslu hvers kyns vímuefna í skóla, á skólalóð og í skólaferðalögum og þeim viðurlögum sem eru í gildi.
- Auka samvinnu foreldra og skóla til að seinka drykkju ungmenna.
Síðast breytt: 26. febrúar 2019