Velkomin í FS - gagnlegar upplýsingar

Við bjóðum þig velkomin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Við vonum að þér eigi eftir að ganga vel í náminu og líða vel í skólanum. Hér á eftir er farið yfir það helsta sem þú þarft að hafa í huga í upphafi skólaársins. Við hvetjum þig líka til að leita til kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa ef þig vantar aðstoð eða þarft að spyrja.                          ENGLISH

Vefur og samfélagsmiðlar

Vefur skólans er www.fss.is en þar er sagt frá skólanum, námsbrautum og áföngum, stefnu, áherslum og reglum sem gilda í skólanum. Þar eru líka fréttir og myndir úr skólalífinu. Skólinn er einnig á Facebook og Instagram (#fsskoli) en þar eru aðallega fréttir og tilkynningar.

Skólakerfið Inna

Skólakerfi framhaldsskólanna heitir Inna og þurfa nemendur að vera með Íslykil eða rafræn skilríki til að skrá sig þar inn. Mjög mikilvægt er að nemendur geti skráð sig í Innu strax í byrjun skólaársins með eigin aðgangi, athugið að það dugar ekki að nota aðgang foreldra/forráðamanna. Í Innu eru allar upplýsingar um nám nemenda, námsferil, einkunnir, mætingar o.fl. Í mörgum áföngum er Inna einnig notuð til að skila verkefnum, taka próf og hafa samskipti. Nemendur þurfa að skrá eigið netfang í Innu en á það koma skilaboð frá kennurum og tilkynningar frá skólanum.

Skriffæri og ritföng

Framhaldsskólar útvega nemendum ekki skriffæri og ritföng. Nemendur þurfa sjálfir að koma með blýanta og penna, önnur ritföng eins og strokleður, reglustiku og yddara og einnig stílabækur og möppur. Í sumum áföngum þarf einnig teikniáhöld, tréliti, vasareikna o.fl. Nemendur geta keypt blýanta á skrifstofu og bókasafni en þeir kosta 150 kr. stykkið.

Tapað - fundið

Skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum nemenda þegar þeir eru í skólanum en nemendur geta fengið skáp til að geyma dótið sitt. Ef nemendur skilja yfirhafnir eða töskur eftir í skólanum eru þær ekki fjarlægðar af starfsfólki. Minni og verðmætari hluti eins og síma, veski, kort og lykla er farið með á skrifstofu og er hægt að ná í þá þar.

Veikindi og önnur fjarvera

Foreldrar/forráðamenn nemenda sem eru ekki orðnir 18 ára þurfa að tilkynna veikindi fyrir þá með því að skrá þau í Innu. Einnig er hægt að hringja eða senda tölvupóst á skrifstofu. Nemendur sem orðnir 18 ára geta sjálfir skráð og tilkynnt veikindi. Aðra fjarveru eins og læknisheimsóknir þarf að tilkynna með því að fylla út eyðublað á skrifstofu. Skýring á fjarveru er þá skráð í Innu. Þegar kennari er veikur eða forfallaður fellur kennsla niður nema annað hafi verið tilkynnt. Nemendur fá tölvupóst með tilkynningu um fjarveru kennara og þær birtast einnig á upplýsingaskjám.

Kennsluáætlanir

Í hverjum áfanga í FS er gefin út kennsluáætlun sem kennari kynnir í upphafi annar. Kennsluáætlanir eru einnig á vef skólans og í Innu. Í kennsluáætlun er lýsing á áfanganum og upplýsingar um kennslubækur, námsmat, mætingar og aðrar reglur sem gilda í áfanganum. Einnig er vikuáætlun fyrir önnina með upplýsingum um yfirferð, verkefni, próf o.s.frv. Nemendur eru hvattir til að nota kennsluáætlanir til að skipuleggja nám sitt.

Stundatöflur og töflubreytingar

Nemendur sjá stundatöflu sína í Innu og þurfa að skoða hvort þeir hafi fengið inn þá áfanga sem þeir þurfa til að útskrifast á réttum tíma. Í byrjun annar geta eldri nemendur breytt stundatöflu sinni. Töflubreytingar eru gerðar í Innu en leiðbeiningar eru á vef skólans. Hægt er að panta tíma hjá námsráðgjöfum til að fá leiðbeiningar við töflubreytingar en nemandi verður að gera breytingarnar sjálfur í Innu. Síðasti dagur til að breyta töflum er gefinn upp á skóladagatali. Athugið að nýnemar geta ekki breytt stundatöflum sínum.

Úrsögn úr áfanga

Ef nemendur ætla sér ekki að stunda nám í áfanga sem þeir eru með í stundatöflu þurfa þeir að segja sig úr áfanganum. Það er gert með því að fylla út eyðublað á skrifstofu. Síðasti dagur til að segja sig úr áfanga er um tveimur vikum eftir að önnin hefst. Ef nemandi er ekki búinn að segja sig úr áfanga fyrir þann dag er hann skráður í áfangann út önnina og fær skráðar fjarvistir ef hann mætir ekki.

Tölvuaðgangur

Allir nemendur þurfa aðgangsorð til að nota tölvur skólans, bæði borðtölvur og fartölvur. Nemendur nota aðgangsorðið einnig til að komast inn á eigið svæði þar sem þeir geta geymt skjöl og gögn. Nemendur geta notað tölvuaðganginn til að sækja Microsoft Office í eigin tölvur og tæki en leiðbeiningar eru á vef skólans. Kerfisstjóri sendir aðgangsorðið til nemenda í tölvupósti í upphafi skólaárs en nemendur geta einnig fengið sitt aðgangsorð á bókasafni skólans.

Fartölvur

Nemendur sem eiga eða hafa aðgang að fartölvu eru hvattir til að nota þær í skólanum enda gagnast þær vel í námi. Nemendur hafa aðgang að þráðlausu neti í skólanum fyrir eigin fartölvur og snjalltæki. Hægt er að fá fartölvur lánaðar á bókasafni skólans en þær eru lánaðar í eina kennslustund.

Nemendaskápar

Á nokkrum stöðum í skólanum eru skápar á göngum sem nemendur geta notað til að geyma dótið sitt. Til að fá skáp þarf nemandi einfaldlega að koma með hengilás og læsa skáp sem hann hefur valið og hann hefur þá þann skáp í vetur. Nemandi ber ábyrgð á skápnum og þarf að tæma hann í lok skólaársins. Næsta sumar verður klippt á lása sem er ekki búið að taka og skáparnir tæmdir.

Skrifstofa

Á skrifstofu skólans eru veittar upplýsingar um starfsemi skólans og það sem þar er að gerast. Nemendur skila þar umsóknum, læknisvottorðum og öðrum vottorðum vegna mætinga og fylla út eyðublöð til að tilkynna fjarveru, segja sig úr áfanga o.fl. Á skrifstofunni er einnig hægt að fá staðfestan námsferil og vottorð um skólavist. Nemendur geta fengið plástra, verkjalyf og tíðavörur á skrifstofunni.

Mötuneyti

Í mötuneyti skólans er boðið upp á ókeypis hafragraut á hverjum morgni. Í hádeginu er hægt að kaupa heitan mat sem kostar 1.000 kr. en einnig er hægt að kaupa 20 matarmiða en þá kostar máltíðin 900 kr. Matseðill vikunnar er birtur á vef skólans. Í mötuneyti er einnig boðið upp á samlokur, vefjur, pastabakka, skyr, drykki o.fl.

Bókasafn

Á bókasafni skólans er veitt hefðbundin bókasafnsþjónusta eins og útlán, heimildaleitir og upplýsingaþjónusta, útprentun og ljósritun. Þar er einnig hægt að fá fartölvur, heyrnartól og vasareikna að láni. Þessi tæki eru lánuð í eina kennslustund í einu. Nemendur geta fengið aðgangsorð fyrir tölvuaðgang á bókasafninu.

Bóksala

Í skólanum er rekin bóksala sem er á bókasafninu. Þar eru aðeins seld hefti sem kennarar gefa út. Bækur sem eru seldar þar eru merktar Bóksala FS í Innu og á bókalista sem er á vef skólans. Aðrar kennslubækur eru seldar í bókabúðum.

Ráðgjafar

Ráðgjafar vinna að velferð nemenda og eru bundnir þagnaskyldu. Náms- og starfsráðgjafar veita nemendum aðstoð í málum sem tengjast námi þeirra, náms- og starfsvali og persónulegum málum. Hægt er að panta tíma hjá námsráðgjöfum á skrifstofu og á vef skólans. Félagsráðgjafi aðstoðar nemendur sem eiga í félagslegum-, námslegum og/eða tilfinningalegum vanda og hjálpar þeim að greina styrkleika sína og virkja þá. Hægt er að panta tíma hjá félagsráðgjafa í netfanginu rannveig.ragnarsdottir@fss.is.

Umsjónarmaður

Umsjónarmaður fasteigna hefur umsjón með skólahúsnæðinu, lóð, búnaði, eftirliti og öryggismálum. Nemendur þurfa m.a. að leita til umsjónarmanns til að fá aðgang að stofum, tækjum og búnaði. Umsjónarmaður sér einnig um nemendaskápa.

Kerfisstjóri

Kerfisstjóri hefur umsjón með tölvubúnaði skólans. Hann sér um tölvur, prentara og aðgang nemenda að þeim. Kerfisstjóri heldur utan um aðgangsorð nemenda og þurfa nemendur að leita til hans ef tölvuaðgangur virkar ekki.