Um Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er framhaldsskóli sem býður fjölbreytt bóklegt og verklegt nám. Skólinn starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Skólinn er áfangaskóli en í því felst að námsefni í einstökum greinum er skipt niður í afmarkaða áfanga sem kenndir eru í eina námsönn. Önninni lýkur með prófi eða öðru námsmati í annarlok. Brautskráning er í lok hverrar annar og er hún hápunktur skólastarfsins. Undanfarin ár hafa um 1000 nemendur stundað nám í skólanum. Þá hafa 100-150 nemendur grunnskólanna á svæðinu stundað nám í einstökum áföngum.

FS hefur starfað síðan haustið 1976. Skólinn var stofnaður í samstarfi ríkisins og allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Þar sameinuðust Iðnskóli Keflavíkur og framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann í Keflavík. Allt frá stofnun skólans hefur hann verið í stöðugum vexti og sprengt utan af sér húsnæðið hvað eftir annað. Haustið 1992 komst starfsemin loks öll undir eitt þak. Í skólanum eru 35 bóknámsstofur: tölvustofur, teiknistofa, tilraunastofur fyrir raungreinar, verknámsstofur fyrir hársnyrtiiðn, vélstjórn, málmsmíði, rafvirkjun, tréiðnir, fatagerð og sjúkraliðanám. Einnig er bókasafn, samkomusalur og mötuneyti fyrir nemendur auk vinnuaðstöðu fyrir kennara og annað starfsfólk. Nemendur stunda íþróttir í Íþróttahúsinu við Sunnubraut sem er við hliðina á skólanum. Nú er skólinn í um 9000 m2 húsnæði en nýjasti hluti þess var tekinn í notkun haustið 2021.

Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja geta valið um bóklegt nám sem lýkur með stúdentsprófi, fjölbreytt iðnnám og styttri starfsnámsbrautir. Skólinn útskrifar sjúkraliða. Í skólanum eru einnig í boði framhaldsskólabrautir. Brautirnar eru fyrir nemendur sem ekki hafa lokið grunnskóla með fullnægjandi einkunnum til að hefja nám á öðrum brautum. Þá rekur skólinn starfsbraut.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er skóli Suðurnesjamanna. Nemendur hans eru úr öllum byggðarlögum svæðisins auk þess sem alltaf eru í skólanum nokkrir nemendur annars staðar frá. Sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum (Reykjanesbær, Grindavík, Suðurnesjabær og Vogar) reka skólann í samstarfi við ríkisvaldið.