Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í reglugerð Menntamálaráðuneytisins, númer 654 frá árinu 2009, segir að framhaldsskólar skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin á að taka mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veittur er.

Samstarf við grunnskóla
Verkefnastjóri með málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fundar með þeim aðila sem hefur yfirumsjón með málefnum þessara nemenda í þeim grunnskólum sem eru í nærumhverfinu. Þar er farið yfir námslega og félagslega stöðu nemanda. Verkefnastjóri er einnig í sambandi við skólastjórnendur um innritun nemenda.

Innritun
Verkefnastjóri hefur sambandi við skólastjórnendur á svæðinu og er í samstarfi við þá um nemendur, með annað móðurmál en íslensku sem eru að innritast í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þeir kennarar í grunnskólum á svæðinu, sem aðstoða erlenda nemendur við innritun í skólann, rita í athugasemd hvað nemendur hafa verið lengi á Íslandi og hver staða þeirra er Íslensku. Með þessu raðast nemandinn rétt í áfanga.
Þeir nemendur sem eru ekki í grunnskóla á Íslandi en ætla að koma í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sækja um á Menntagátt eða á skrifstofu skólans.

Móttökuviðtal
Eftir að nemendur eru innritaðir inn í skólann koma þeir í móttökuviðtal hjá verkefnastjóra nemenda með annað móðurmál en íslensku. Þar er upplýsinga aflað um bakgrunn nemenda, málasvæði, tungumálafærni og kunnáttu og hæfni á öðrum námssviðum.

Aðstoð við nemendur
Verkefnastjórinn sér um utanumhald og umsjón með nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku. Hann kynnir skólakerfi FS, skólareglur, námsbrautir og stuðningskerfi sem skólinn býður upp á fyrir nemendum. Hann sér einnig um að aðstoða nemendur með það sem þeir þurfa aðstoð við, hvort sem það eru upplýsingar um eitthvað sem viðkemur skólanum eða heimanám. Verkefnastjórinn sendir póst á alla kennara skólans og tilkynnir þeim um nýja nemendur.
Verkefnastjórinn fylgist einnig með námsframvindu nemenda, aðstoðar nemendur við val og er kennurum innan handar varðandi framvindu í þeim áföngum sem þeir sækja. Verkefnastjóri er með fasta viðtalstíma og fastan tíma þar sem hann aðstoðar nemendur sem þurfa aðstoð við heimanám. Ef nemendur óska eftir aðstoð og fastir tímar henta ekki, finnur verkefnastjóri tíma í samráði við nemandann. Verkefnastjóri er einnig tengiliður nemenda við námsráðgjafa og kennara.
Verkefnastjóri upplýsir nemendur um uppákomur og annað sem viðkemur skólastarfinu. Hann sendir nemendum tölvupóst á bæði íslensku og ensku og upplýsir þá um það sem framundan er í skólastarfinu.

Íslenskukennsla
Nemendur með annað móðurmál en íslensku fá sérstaka kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í skólanum. Nemendum er raðað í áfanga í íslensku sem öðru tungumáli í samráði við grunnskólann. Eftir fund verkefnastjóra með kennurum nemenda með annað móðumál en íslensku ræðir verkefnastjóri við námsráðgjafa um röðun nemenda í íslenskuáfanga. Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli er einstaklingsmiðuð eftir þörfum hvers nemanda.