Utanskólanám og P-nám

Utanskólanám og P-nám er eingöngu ætlað dagskólanemendum og einkum væntanlegum útskriftarnemendum. Við afgreiðslu umsókna er árangur í undanfara skoðaður og ræður mestu um hvort umsókn er samþykkt.

P-nám

Nemandi í reglulegu námi getur fengið heimild til að stunda nám án tímasóknar í tilteknum áfanga eða áföngum. P-heimild er ekki veitt nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:

  1. Nemandi sem fær einkunnina 8 eða meira í námsáfanga, getur sótt um að stunda P-nám í næsta áfanga í greininni.
  2. Nemandi getur ekki tekið meira en 6 einingar í P-áföngum á sömu önn.
  3. Nemandi á útskriftarönn getur fengið P-umsókn samþykkta þó að hann uppfylli ekki skilyrðin ef P-heimild getur greitt fyrir útskrift hans á önninni.

Umsóknir um P-nám þurfa að berast skólanum áður en auglýstur umsóknarfrestur rennur út, en hann er venjulega í lok fyrstu kennsluviku. Nokkrum dögum seinna fá nemendur send bréf þar sem þeim er tilkynnt hvort umsókn þeirra hefur verið samþykkt eða ekki. Hafi umsóknin verið samþykkt þurfa nemendur að fá undirskrift kennara á þar til gert eyðublað og skila því fyrir tilskilinn tíma.

 

Utanskólanám

Nemendum er heimilt að sækja um utanskólanám í einstökum áföngum. Um utanskólanemendur gilda sömu námskröfur og um aðra nemendur skólans. Utanskólanemendur fá að jafnaði ekki að sækja kennslustundir nema um sé að ræða æfingar sem þeim er skylt að ljúka en þeir skulu standa skil á verkefnum, skýrslum og ritgerðum í samráði við kennara sem málið varðar. Nemendur fá allar nauðsynlegar upplýsingar um námið hjá kennara, bæði um námsgögn, námskröfur og verkefni, en stunda sjálfsnám að mestu leyti. Sumar greinar eru þess eðlis að ekki er hægt að stunda nám í þeim utan skóla.

Umsóknir um utanskólanám þurfa að berast skólanum áður en auglýstur umsóknarfrestur rennur út, en hann er venjulega í lok fyrstu kennsluviku. Nokkrum dögum seinna fá nemendur send bréf þar sem þeim er tilkynnt hvort umsókn þeirra hefur verið samþykkt eða ekki. Hafi umsóknin verið samþykkt þurfa nemendur að fá undirskrift kennara á þar til gert eyðublað og skila því fyrir tilskilinn tíma.


Síðast breytt: 21. janúar 2013.