Vígsla viðbyggingar

Viðbygging við Fjölbrautaskóla Suðurnesja var vígð miðvikudaginn 8. september. Byggingin tengir saman nýjasta og elsta hluta skólahússins en þar er margs konar aðstaða fyrir nemendur. Með viðbyggingunni er langþráður draumur að rætast en lengi hefur verið rætt um að koma upp aðstöðu sem nemendur geta nýtt milli kennslustunda en í byggingunni er einnig skrifstofa nemendafélags skólans.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp við vígsluna en meðal gesta voru þingmenn Suðurlandskjördæmis, sveitarstjórnarmenn og bæjarstjórar sveitarfélaga á Suðurnesjum, skólanefnd, stjórn nemendafélagsins, fyrrverandi skólameistarar, fulltrúar verktaka og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fleiri. Guðlaug Pálsdóttir skólameistari bauð gesti velkomna og sagði frá hlutverki byggingarinnar. Einar Jón Pálsson, formaður bygginganefndar, sagði frá undirbúningi og framkvæmdum og síðan skoðuðu gestir bygginguna.

Viðbyggingin er 260 m2. Arkitekt var Jón Stefán Einarsson hjá JeES arkitektum, Verkfræðistofa Suðurnesja sá um hönnun og eftirlit en aðalverktaki var Húsagerðin.

Hér er myndasafn frá vígslu viðbyggingar.

Ráðherra og skólameistarar á vígslu viðbyggingar

Gestir á vígslu viðbyggingar

FS-blöðrur á vígslu viðbyggingar