Verknám á Spáni

Verknám – Orihuela Spánn

Í mars sendi Fjölbrautaskóli Suðurnesja tvo sjúkraliðanema í verknám á Spáni. Nemendurnir fá námið metið sem hluta af því verknámi sem ætlast er til að þeir ljúki í námi sínu. Þetta er í fyrsta sinn sem skólinn sendir nemendur erlendis í vinnustaðanám. Ferðin var styrkt af Erasmus+ og var hluti af verkefninu "Út fyrir landsteinana" sem snýr að því að efla verk-og starfsnám og kanna þau tækifæri sem felast í erlendu samstarfi á þeim vettvangi.

Mars 2023

Orihuela er kaþólskur bær með mikla sögu í bænum búa rétt yfir 101.000 manns. Við Halla og Hera sjúkraliðanemar ákváðu að skella sér í djúpu laugina og fara í tvær vikur í vinnustaðanám til Spánar.

Helsta áskorunin var hve erfitt var að skilja starfsfólk og sjúklingana á stofnuninni þar sem lítil sem enginn enska var töluð á hjúkrunarheimilinu. Margt var öðruvísi á hjúkrunarheimilinu á Spáni en við erum vanar hérna á Íslandi en við vinnum báðar á öldrunarstofnunum. Húsnæðið var stórt og kuldalegt og vel yfir 100 íbúar á stofnuninni sem var skipt niður eftir hjúkrunarþyngd hvers og eins skjólstæðings. Þó nokkuð var af ungu fólki með geðraskanir og einn hluti hússins einskonar dvalarheimili eða þar sem einstaklingar gátu að mestu séð um sig sjálfir en gátu ekki dvalið heima sökum hrakandi heilsu. Þrátt fyrir tungumálaörðugleika gekk þetta ágætlega, við fylgdum öðrum nemum sem kunnu eitthvað í ensku.

Það kom okkur mest á óvart hve vinnutilhögun er öðruvísi en heima. Matmálstímum er t.d. skipt niður eftir hjúkrunarþyngd. Lyfjamálin eru tugi ára á eftir okkur, lyf hvers og eins eru sett í skúffu í vagni fyrir vikuna og okkur þótti það ekki öruggt. Það voru teymi sem komu að aðhlynningu, einhverjir aðstoðuðu við aðhlynningu og aðrir bjuggu um rúm og gengu frá aðrir komu með sáravagn og skiptu á sárum hjá þeim sem þurfti. Kallkerfi var í húsinu sem okkur þótti afar skrýtið, kallað var eftir aðstoð af hálfgerðum ritara í stað bjöllukerfis sem við erum vanar hérna heima. Herbergi íbúana voru einungis með rúm, náttborð og skáp, enga persónulega hluti á veggjum eða náttborði. Hjúkrunin sem slík var líka eitthvað sem við erum óvanar hérna á Íslandi einnig hvað varðar endurhæfingu, hjálpartæki og iðju. Við fengum einnig að fara í skólann þar sem kennd er hjúkrun og annað iðnnám og var allur búnaður til kennslu þó nokkuð eldri og ekki eins vel búin að við höfum vanist heima á Íslandi.

Við vorum afar heppnar með veður og fórum meðal annars í stóran göngutúr með starfsfólki og íbúum einn daginn enda voru þessir góðu dagar nýttir vel til útiveru þar sem búist var við afar heitu sumri og þá eru gönguferðir ekki möguleiki fyrir íbúana. Í frítímum okkar fórum við til Murcia, Benidorm, á ströndina og til Torreveija. Það má segja að vinnustaðanámið hafi verið lærdómsríkt og öðruvísi en heima og efumst við um að fá svona tækifæri aftur en þetta fer í reynslubankann og má segja að við kunnum að meta betur hjúkrunaraðferðir heimavið eftir ferðina.

Halla Garðarsdóttir og Hera Gísladóttir