Vélknúin hlaupahjól

Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi. Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum. 

Við Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur nýlega verið komið fyrir nýjum hjólagrindum sem henta prýðilega til að læsa öllum tegundum af tveggja hjóla farartækjum við, líka rafhlaupahjólum. Okkur langar að hvetja nemendur og starfsfólk til að íhuga ferðamáta sinn í skólann nú með hækkandi sól og skoða þá möguleika sem eru í stöðunni, hvort sem það er að ganga eða hjóla. Við hvetjum líka alla til að skoða "Korterskortið" sem tekur mið af staðsetningu skólans og skilgreinir vegalengdir sem eru í 15 mínútna göngufjarlægð frá skólanum og 6 mínútna hjólafjarlægð. 

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Samgöngustofu en þar má einnig finna ofangreindar upplýsingar. Þar er einnig að finna efni um rafhlaupahjól á íslensku, ensku og pólsku.