Vel heppnuð nýnemavika

Fyrstu viku annarinnar stóð nemendafélagið NFS fyrir nýnemaviku en þá voru nýnemar boðnir velkomnir í skólann. Viðburðir vikunnar voru fjölbreyttir en uppákomur voru á hverjum degi. Vikan byrjaði á því að nemendum var boðið upp á ljúffenga súkkulaðiköku. Í hádeginu á þriðjudegi fór fram kappát þar sem fjórir nýnemar öttu kappi og hámuðu í sig dýrindis hamborgara sem Bruno kokkur eldaði af stakri snilld.

Miðvikudagur var viðburðarríkur en þá fóru fram nýnemakosningar. Á hverju hausti geta nýnemar boðið sig fram í hinar ýmsu nefndir nemendafélagsins en á kjörskrá eru aðeins nýnemar. Þetta árið var mjög góð þátttaka og margir flottir nemendur sem buðu sig fram til starfa. Kosningaþátttaka var mjög góð og oft ansi mjótt á munum. Meðan á kosningunum stóð bauðst nemendum að kaupa sér glænýja kleinuhringi úr matarvagni sem var staðsettur við skólann.

Á miðvikudagskvöldinu var skemmtikvöld. Þá mættu nýnemar í skólann og tóku þátt í skemmtilegum ratleik, auk þess sem þeir gæddu sér á pizzu í boði NFS.

Á fimmtudegi brostu veðurguðirnir sínu blíðasta og af því tilefni var sett upp svokölluð „Slip 'N Slide“ vatnsrennibraut þar sem allir gátu komið og rennt sér. Úr varð hin besta skemmtun.

Seinnipartinn á föstudegi var svo farið í „nýnemaferð“ en þá söfnuðust nýnemar saman í Njarðvíkurskógi. Þar var farið í hina ýmsu leiki og boðið upp á veitingar. Undir lokin kom Róbert Andri, nemandi við skólann, með gítarinn og skellt var í nokkra söngva.

Vikan var svo sannarlega skemmtileg og vonandi að nýnemum finnist vel tekið á móti þeim.