Vel heppnuð Erasmus+ námsferð til Sikileyjar

Fyrsta námsferðin í nýju samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla Suðurnesja Media and Information Literacy: Learning to Think Critically“ tókst með eindæmum vel.  Í verkefninu verða öll þátttökulöndin heimsótt og við í FS munum síðar taka að okkur að vera gestgjafar. Samstarfsskólarnir eru frá Ítalíu, Lettlandi, Porúgal, Tyrklandi og Króatíu. Í hverri heimsókn er blandað saman námi í vinnustofum og kappræðum, farið er í vettvangsferðir sem ýmist tengjast viðfangsefni verkefnisins eða hafa þann tilgang að kynna menningu gestgjafanna.

Í þessari fyrstu ferð var förinni heitið í bæinn Gela á Sikiley dagana 26. febrúar-4. mars. Í hópi FS voru tveir kennarar, þær Ásta Svanhvít Sindradóttir og Harpa Kristín Einarsdóttir og fjórir nemendur, þau Ásdís Birta Hafþórsdóttir, Bjarki Freyr Bjarkason, Emma Jónsdóttir og Nana Yaa Asantewaa Somuah. Í samstarfinu eru sex aðrir skólar frá Ítalíu, Króatíu, Lettlandi, Tyrklandi og Portúgal og komu saman hátt á fimmta tug nemenda og á annan tug kennara í þessari fyrstu námsferð.

Nemendur gistu á heimilum ítalskra nemenda þar sem þau fengu hlýjar móttökur og mynduðust góð tengsl milli nemendanna. Krakkarnir voru dugleg að blanda geði við nemendur frá öðrum löndum og á kvöldin hittist yfirleitt stór fjölþjóðlegur hópur og fór saman út að borða eða spiluðu saman körfu.

Kennarar samstarfslandanna mættu til leiks með skipulagðar vinnustofur fyrir nemendur um ýmis málefni sem tengjast viðfangsefni verkefnisins, gagnrýnni hugsun og upplýsinga-og fjölmiðlalæsi. Má þar nefna vinnustofur um mannréttindi, rétt fólks til aðgengis að upplýsingum, tjáningarfrelsi, lýðræði og áróður svo fátt eitt sé nefnt. Þrír nemendur frá hverju landi tóku þátt í kappræðum þar sem tekist var á um hvort málfrelsi eða ritskoðun ætti að ríkja.

Hópurinn fór meðal annars í vettvangsferð í stúdíó sjónvarpsfréttastöðvar í Gela, heimsótti bæjarstjórann í ráðhúsið, skoðaði fallega bæinn Taorimina, borgina Catania og 2500 ára gamlar fornminjar í Valle dei Templi.

Krakkarnir okkar úr FS stóðu sig frábærlega og voru skólanum til sóma og taka þau með sér góðar minningar og nýjan vinskap.