Vel heppnað uppbrot

Þriðjudaginn 21. febrúar var skólastarfið brotið upp og boðið upp á skemmtilega dagskrá. Þema dagsins var annars vegar andleg og líkamleg heilsa og hins vegar kvikmyndamenning. Boðið var upp á hreyfingu, fyrirlestra og kvikmyndasýningar og var nóg við að vera um allan skólann.

Í hádeginu var svo matartorg á sal. Þar var hægt að gæða sér á pizzu, tacos, vefjum, mini-hamborgurum, kjúklingaspjótum, samlokum, ís, skúffuköku og vöfflum með rjóma. Starfsfólk mötuneytisins vann hörðum höndum allan morguninn við að undirbúa og hafði nokkra öfluga kennara með sér. Framboðið var líka girnilegt og veitingarnar runnu ljúflega niður.

Á sal var einnig boðið upp á létta skemmtun. Jón Grímsson og Karla Valentina Rodriguez Diaz sungu sitt hvort lagið en þau tóku bæði þátt í söngvakeppninni Hljóðnemanum á dögunum. Starfshlaup ársins hófst svo formlega þegar fyrirliðar liðanna voru kynntir. Fjögur lið keppa í hlaupinu og miðað við kynninguna telja þau sig öll nokkuð örugg með sigur í ár.

Lokaatriði dagsins var svo þegar Jón Jónsson steig á svið og söng nokkur vel valin lög við mikinn fögnuð viðstaddra. Eins og venjulega náði kappinn upp mikilli stemningu og hætti ekki fyrr en nemendur og starfsfólk dönsuðu í halarófu um salinn. Jón hefur áður komið fram á skemmtunum í skólanum og það er óhætt að segja að engum öðrum takist að ná upp eins mikilli stemningu á sal. Toppmaður þar á ferð og það var vel við hæfi að hann kláraði vel heppnaðan dag og allir fóru ánægðir heim.

Í myndasafninu er myndapakki frá uppbrotsdeginum.