Útskrift vorannar

Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram föstudaginn 21. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 128 nemendur; 102 stúdentar og 20 útskrifuðust af verk- og starfsnámsbrautum. Þá luku 12 nemendur prófi af starfsbraut og 5 af framhaldsskólabraut. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 75 og karlar 53. Alls komu 92 úr Reykjanesbæ, 17 úr Suðurnesjabæ, 10 úr Grindavík og einn frá Reykjavík, Hafnarfirði, Húsavík og Neskaupstað.

Vegna fjöldatakmarkana gátu gestir ekki sótt útskriftina að þessu sinni og því voru aðeins útskriftarnemendur og starfsfólk skólans viðstatt. Þess í stað var athöfnin send út á vef skólans og á YouTube.

Dagskráin var annars með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Ingibjörg Birta Jóhannsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ragnheiður Gunnarsdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en að þessu sinni léku Kristberg Jóhannsson nýstúdent og Magnús Már Newman trommudúett og Emilía Sara Ingvadóttir, Eygló Ósk Pálsdóttir og Kristín Þóra Pétursdóttir léku á klarinett.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Að þessu sinni voru veitt fjölmörg verðlaun enda voru 10 útskriftarnemendur með meðaleinkunn yfir 9,0. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut María Tinna Hauksdóttir 100.000 kr. styrk en hún var með 9,55 í meðaleinkunn.

Jórunn Tómasdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir og Sumarrós Sigurðardóttir voru kvaddar á útskriftinni en þær voru að hætta störfum eftir að hafa kennt við skólann um árabil. Sigurlaug Kristinsdóttir bókari hættir einnig störfum í sumar eftir áralangt starf. Þeim var öllum þakkað fyrir vel unnin störf í þágu skólans.

Við athöfnina veitti skólameistari Guðlaugu Pálsdóttur aðstoðarskólameistara gullmerki Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hún hefur starfað við skólann í 25 ár. Það er hefð að veita starfsfólki skólans þessa viðurkenningu við þessi tímamót.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2021.

Myndir frá útskrift eru komnar inn á síðuna og má skoða þær með því að smella á albúmið hér að neðan.

Útskrift vorannar 2021