Þrískólafundur á Akranesi

Samstarfsfundur starfsfólks framhaldsskólanna á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi var haldinn á Akranesi 1. febrúar. Þessir skólar hafa lengi unnið saman að ýmsum málum eins og námsframboði og skipulagi náms. Allt starfsfólk skólanna hittist síðan á tveggja til þriggja ára fresti og skiptast skólarnir á um að halda þá fundi.

Að þessu sinni var fundurinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari FVA bauð fólk velkomið á fundinn og á Skagann. Svali Björgvinsson flutti síðan fróðlegt erindi um hvernig starfsánægja, sterkar liðsheildir og skýr stefna skapa góðan árangur. Að því loknu skipti starfsfólk sér í hópa eftir kennslugreinum og störfum og bar saman bækur sínar.

Að loknum ljúffengum hádegisverði var komið að Jóel Sæmundssyni að flytja erindi um framtíð menntamála á Íslandi. Þegar til kom reyndist erindið hins vegar snúast um annað enda er Jóel leikari en ekki sérfræðingur í menntamálum! Eftir þetta skemmtilega framlag spjallaði fólk saman áður en haldið var heim.

Í myndasafninu eru nokkrar myndir frá Þrískólafundinum.