Sýning útskriftarnemenda af listnámsbraut

Nú stendur yfir barna og ungmennahátíð í Duushúsum Reykjanesbæ. Útskriftarnemar á listnámsbraut í FS taka þátt og er sýning á verkum þeirra er í Bíósalnum.

Sýningin var opnuð fimmtudaginn 27. apríl. Helga Þórsdóttir forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar bauð gesti velkomna fyrir hönd safnsins og Bragi Einarsson myndlistarkennari sagði síðan frá sýningunni og kynnti nemendur og verk þeirra.

Sýningin verður opin í Duushúsum til 7. maí. Við hvetjum alla til að skoða þessa skemmtilegu sýningu.

Á myndinni hér til hliðar má sjá útskriftarnemendurna ásamt kennara sínum, Braga Einarssyni.

Eftirtaldir nemendur eiga verk á sýningunni:

  • Aleksandra Czaplinska - Frogtopia
    Heimur eins og við þekkjum en ef mismunandi leiðtogar heimsins væru froskar. Teikningar og Akrýlmyndir.
  • Arnhildur Unnur Kristjánsdóttir - Íslenskt landslag
    Landslagsmyndir unnar í akrýl.
  • Dagrún Ragnarsdóttir - Lilith, móðir djöfla
    Verkefnið Lilith, móðir djöfla er innblásið af sögu Lilith úr testamentum Gyðinga.
  • Margrét Guðfinna Friðriksdóttir - Criptid
    Gyðjan - textílverk
    Gyðjan er allt það heilaga og góða í heiminum, hún lifir í drauma útópíu þar sem fólk fær að endurtaka líf sitt. Hún er talin vera óspillt og allir sem baða sig í geislum hennar gætu orðið eins óspillt og hún.
    Leiðtoginn - textílverk
    Leiðtoginn er skuggaleg tálsýn, hún birtist bara einn daginn með kenningar af gyðju sem er talin hafa verið raunveruleg í landi langt héðan frá.
    Doe - akrýlmálning á viðarplötu
    Doe er eins og við öll, Doe er viðkvæm sál og það þarf að fara varlega í kringum hann.
  • Tómas Poull Einarsson - Life and Death
    Stutt myndbandsverk sem Tómas byggir á eigin lífi. Hann fékk innblástur frá tölvuleiknum Omori en lagið sem er notað er líka úr Omori og heitir Final Duet. Tómas Poull lék lagið á píanó við opnun sýningarinnar.