Saman stofnum við Fab Lab Suðurnesja

Í dag er hátíðlegur dagur fyrir íbúa á Suðurnesjum. Síðastliðin tvö ár hafa staðið yfir viðræður um að stofna Fab Lab Suðurnesja. Í dag kom öflugur hópur fólks saman í Fjölbrautaskóla Suðurnesja til að skrifa undir samninga um stuðning við rekstur Fab Lab smiðjunnar og sameiginlega þátttöku þeirra sem koma að verkefninu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra voru þar ásamt bæjarstjórum sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, stjórnendum menntastofnana, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og öðrum sem hafa unnið að undirbúningi Fab Lab smiðju í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangurinn var að skrifa undir samninga um stofnun Fab Lab smiðjunnar en samningarnir styðja við rekstur smiðjunnar og sameiginlega þátttöku þeirra sem koma að verkefninu.

Fab Lab Suðurnesja verður staðsett í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Notendur smiðjunnar munu hafa aðgang að þrívíddarprenturum, laserskerum, vínilskerum, fræsivélum, rafeindabúnaði og fleiri tækjum. Markmiðið með smiðjunni er meðal annars að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Einnig að auka áhuga nemenda grunn- og framhaldsskóla á verk- og tækninámi, auka almennt tæknilæsi, tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmiðið er þannig að efla samkeppnishæfni íbúa, fyrirtækja og stofnana á svæðinu.

Íbúar á Suðurnesjum eru ríflega 30 þúsund og hefur fjölgað mikið síðustu áratugi. Fab Lab Suðurnesja mun þjóna íbúum á Suðurnesjum; nemendum, kennurum, frumkvöðlum, listafólki, atvinnuleitendum og starfsfólki fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana.

Róttækar breytingar í samfélaginu og atvinnulífi kalla á breytingar í menntamálum. Á Suðurnesjum eru mjög öflug fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum sem reiða sig á tækninýjungar. Þar má nefna líftæknifyrirtæki, orkufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, flugtengd fyrirtæki, ferðaþjónufyrirtæki og verslanir svo eitthvað sé nefnt. Nokkur fyrirtæki á Suðurnesjum hafa nú þegar sýnt smiðjunni stuðning með styrkveitingum til tækjakaupa. Fab Lab Suðurnesja er einnig góður vettvangur til að kynna nemendahópum þau framtíðarstörf sem þarf að sinna innan fyrirtækja. Hægt er að kynna störf í gegnum verkefni sem nemendur leysa sjálf með ráðgjöf, námskeiðum eða kynningum starfsmanna. Við okkur blasa mikil tækifæri til að nýta innviði og þekkingu fyrirtækja á Suðurnesjum til að efla unga fólkið og kveikja áhuga þess og annarra íbúa á að nýta tæknina til að vera skapandi þátttakendur í tækniuppbyggingu framtíðarinnar. 

Í myndasafninu eru myndir frá stofnun FabLab smiðjunnar.