Með FS út í heim

Eins og margir vita tekur FS þátt í sterku og fjölbreyttu samstarfi við skólastofnanir í Evrópu. Síðustu tvö árin höfum við tekið þátt í verkefninu Cultural Heritage in a European Project. Nú á dögunum héldu tveir kennarar, þær Kristjana Hrönn Árnadóttir og Margrét Alda Sigurvinsdóttir, og fimm nemendur, þau Aníta Ýrr Taylor, Dagrún Ragnarsdóttir, Tristan Rosento, Sigrún Eva Ægisdóttir og Vilmar Hugi Jóhannsson, til Eger í Ungverjalandi til að taka þátt í síðustu skólaheimsókn verkefnisins. Í Eger hittust nemendur frá fjórum skólum í Ungverjalandi, Íslandi, Spáni og Finnlandi.

Nemendur gistu á heimilum ungverskra nemenda og var tekið vel á móti þeim öllum. Svo vildi til að flestir íslensku krakkarnir fengu að gista hjá þeim ungversku nemendum sem þau sjálf höfðu fengið í heimsókn í september sl. Krakkarnir eyddu miklum tíma saman og mynduðust góð tengsl milli nemenda frá öllum löndunum.

Dagskrá vikunnar var fjölbreytt og snerist um að miðla menningu Ungverjalands til gestanna. Á dagskrá vikunnar voru meðal annars heimsókn í gulli lagt þinghúsið í Búdapest, heimsókn í Buda kastala og Eger kastala, og 2,5 km. ganga í Aggtelek hellana. Á meðan dagskránni stóð unnu nemendur að alls kyns verkefnum sem tengdust menningu.

Í lok ferðarinnar unnu nemendur að nettímariti um upplifun sína og verður það birt þegar það er tilbúið.

Nemendur okkar voru opnir og tilbúnir til að taka þátt í öllu sem fyrir þau var lagt. Þau voru skólanum okkar til mikils sóma og mynduðu tengsl sem án efa eiga eftir að fylgja þeim um ókomna tíð.

Hér að neðan fylgja hlekkir að nettímaritum frá heimsóknum okkar til Spánar og Finnlands á síðasta ári.

Cultural Heritage - Orihuela issue - A magazine created with Madmagz

https://madmagz.com/magazine/2023015