Með FS út í heim!

Þessi misserin tekur Fjölbrautaskóli Suðurnesja þátt í Erasmus+ verkefninu „Cultural Heritage in a European Context“. Auk FS taka þrír aðrir skólar frá Spáni, Finnlandi, og Ungverjalandi þátt í verkefninu. Verkefnið snýst um að fræða nemendur um evrópska menningu, mikilvægi hennar og uppruna, auk þess að skapa tengsl milli nemenda í Evrópu, en nemendur sem fá að fara milli landa gista hjá fjölskyldum nemenda í þeim skólum sem taka þátt.

Nú á dögunum fóru fimm nemendur ásamt tveimur kennurum í ferð til Spánar. Það voru þau Dagbjört Rós, Ingólfur Ísak, Ísak Þór, Lárus Logi og Nadía Heiðrún sem fóru í fylgd Kristjönu enskukennara og Lilju íslenskukennara. Tekið var á móti hópnum í menntaskólanum Gabríel Míró í Orihuela þar sem haldin var móttaka og nemendur frá öllum löndunum hittust. Búið var að skipuleggja fimm daga dagskrá til að kynna nemendur og kennara fyrir sögu svæðisins. Dagskráin innihélt meðal annars ferð í La Mata Park, dagsferð til La Alhambra kastala, ferð til Lorca, auk heimsókna á hin ýmsu söfn. Einnig fékk hópurinn að læra grunnsporin í Flamenco dansi en þar komu svo sannarlega leyndir hæfileikar í ljós!

Ferðin var ótrúlega skemmtileg í alla staði og gekk vel. Dagskráin var mjög skemmtileg og fræðandi og vel skipulögð hjá Spánverjunum. Krakkarnir okkar voru til algjörrar fyrirmyndar. Hentu sér af fullum krafti í öll verkefni, voru til í að prófa og gera allt sem fyrir þau var lagt og voru opin fyrir samskiptum við aðra. Þau stóðu sig með prýði og var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim.

Næsta ferð vegna verkefnisins verður til Finnlands í byrjun maí en þá fá fimm aðrir nemendur tækifæri til að heimsækja og taka þátt í dagskrá skipulagðri af kennurum og nemendum í Winnova skólanum í bænum Pori.