Nemendur í réttarvísindum og afbrotafræði skelltu sér í heimsókn á tæknideild lögreglunnar í Reykjavík við Vínlandsleið í Grafarvogi ásamt kennurum sínum, Boga og Hörpu. Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður og blóðferlasérfræðingur og Björgvin Sigurðsson sérfræðingur lögreglunnar í lífsýnagreiningum og tóku afar vel á móti tveimur hópum áhugasamra nemenda. Þeir sögðu frá helstu verkefnum tæknideildar og því starfi sem þar fer fram. Nemendur fengu innsýn í hvernig unnið er með ýmis sönnunargögn eins og til dæmis fingraför, blóðslettur og önnur lífsýni. Þeir ræddu líka umfang starfseminnar og þróun síðustu ára til dæmis hvað varðar innflutning og framleiðslu fíkniefna. Erindi þeirra var vægast sagt fróðlegt og mátti bæði sjá og heyra hve ánægðir nemendur voru með heimsóknina. Það er ekki ólíklegt að sumir nemendur hafi fundið framtíðarstarfið í þessari heimsókn.