Árshátíð Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram miðvikudagskvöldið 27. apríl. Flestir gestir voru að upplifa sína fyrstu árshátíð enda orðin þrjú ár síðan hægt var að halda hana vegna Covid-faraldursins. Nemendur tóku árshátíðina með trompi en yfir 400 miðar seldust. Dagskráin var ekki af verri endanum enda komu fram sumir af frægustu listamönnum þjóðarinnar! Þar má nefna Bubba Morthens, Siggu Beinteins, Stuðlabandið, Herbert Guðmundsson, Bjartmar Guðlaugson, Flóna, Clubdub og Daniil.
Gríðarleg stemning myndaðist á ballinu og virtust allir skemmta sér ótrúlega vel. Svo mikið var dansað og sungið að margir voru hreinlega orðnir hásir þegar haldið var heim. Ballið gekk enda eins og í sögu! Nemendur voru til fyrirmyndar og var umtalað að sjaldan hefði verið eins lítið að gera í gæslunni. Mikið gleðiefni var að drykkja virtist hafa verið í lágmarki fyrir ballið.
Virkilega góð árshátíð sem verður lengi í minnum höfð!