Kynning á Erasmus+ verkefnum í FS í tilefni Erasmusdaga

Erasmusdagar eru haldnir dagana 13.-15. október og því er kjörið tækifæri að kynna þau Erasmus+ verkefni sem Fjölbrautaskóli Suðurnesja tekur þátt í. Núna eru þrjú verkefni í gangi í skólanum og einu nýlokið.

Við erum mjög stolt af verkefninu Cultural Heritage in a European Context en verkefnið er samstarf skóla frá Finnlandi, Ungverjalandi og Spáni. Markmið verkefnisins er að efla menningarlæsi nemenda og auka víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðrum menningarheimum. Nemendur fræðast um siði, menningu og markverða staði í samstarfslöndunum. Þau þjálfa einnig tungumála-og samskiptafærni auk þess en þau þjálfast í tölvunotkun og samvinnu. Hugmyndin að samstarfinu spratt upp úr fyrra samstarfi við Ungverjaland og má líta á verkefnið sem nokkurskonar framhald af National Prides in a European Context verkefninu sem var í gangi 2018-2021. Í þessum tveimur verkefnum hafa 40 nemendur fengið tækifæri til þess að eflast og þroskast með því að ferðast, kynnast menningu annarra landa og víkka út þægindaramma sinn.

Nýtt verkefni er að fara af stað í vetur en það kallast Media and Information Literacy: Learning to Think Critically og er samstarf okkar við skóla frá Króatíu, Portúgal, Lettlandi, Tyrklandi og Ítalíu. Í þessu verkefni munu nemendur vinna ýmis verkefi sem tengjast fjölmiðlalæsi, falsfréttum og öryggi heimilda, áhrifum samfélagmiðla á sjálfsmynd og margt fleira áhugavert. Kennararnir sem taka þátt vinna að því að búa til námsefni sem nýtast mun í framtíðinni og hægt verður að deila utan skólans. Verkefnið verður í gangi til ársins 2024. Um tuttugu nemendur munu fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni.

Að lokum má nefna verkefnið Út fyrir landsteinana-tækifæri í Evrópu sem hefur það markmið að efla kennara í starf- og verknámi og auka þátttöku þeirra í erlendu samstarfi og að taka fyrstu skrefin í að veita nemendum í verk-og starfsnámi tækifæri til þess að taka hluta af starfsþjálfun sinni erlendis. Á næstu tveimur önnum munu 8 kennarar fara í skólaheimsóknir víða um Evrópu og tveir nemendur í 2 vikna þjálfun erlendis.