FS orðinn UNESCO-skóli

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er orðinn UNESCO-skóli en umsókn skólans hefur nú verið samþykkt eftir nokkuð ferli. Ferlið var unnið í samvinnu við Suðurnesjavettvang og Reykjanes Jarðvang en þessir aðilar hafa sett af stað verkefni í samvinnu við UNESCO skóla á Íslandi til að styðja við leik-, grunn, og framhaldsskóla á Suðurnesjum að gerast UNESCO skólar.

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953 undir nafninu UNESCO Associated Schools Project Network (ASPnet). Þeir eru nú um 10.000 talsins og starfa í 180 löndum. Skólarnir eru á leik-, grunn– og framhaldsskólastigi. UNESCO–verkefni auka fjölbreytni í kennsluaðferðum og þekkingu nemenda á málefnum Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðunum.

Í tilefni þessara tímamóta heimsótti Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland, skólann. Hún afhenti m.a. bækur og efni frá Reykjanes GeoPark sem skólinn mun nýta. Það eru kennararnir Guðbjörg Rúna Vilhjálmsdóttir og Davíð Ásgeirsson sem hafa haldið utan um þetta verkefni fyrir hönd skólans og þau tóku við gjöfunum ásamt Kristjáni Ásmundssyni skólameistara og Guðlaugu Pálsdóttur aðstoðarskólameistara.