Frábær vinnuvika í Erasmus+ verkefninu „Media and Information Literacy: Learning to Think Critcally“

Dagana 2.-6. október 2023 fór fram þriðji fundur nemenda og kennara í Erasmus+ verkefninu „Media and Information Literacy: Learning to Think Critcally“ en það snýst um að efla upplýsinga- og fjölmiðlalæsi og efla gagnrýna hugsun. Að þessu sinni var komið að okkur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja að taka á móti gestum og skipuleggja dagskrá vikunnar. Samstarfsskólarnir eru sjö að okkur meðtöldum og frá sex löndum: Íslandi, Króatíu, Ítalíu, Lettlandi, Tyrklandi og Portúgal. Hópurinn sem kom á fundinn var stór eða 13 kennarar og 24 nemendur auk 23 nemenda úr FS.

Í hverri heimsókn er blandað saman námi í vinnustofum og kappræðum og farið er í vettvangsferðir sem ýmist tengjast viðfangsefni verkefnisins eða hafa þann tilgang að kynna menningu gestgjafanna.

Nemendum er skipt í fjölþjóðlega hópa og stýra kennarar frá hverjum gestaskóla einni vinnustofu. Að þessu sinni voru vinnustofurnar:

  • Five Questions for Media Analysis
  • Text analysis
  • Product placement: Young people as target audience for ads
  • Sensationalism and spin
  • Netiquette and Responsible Expression
  • Virtual consumption

Gestgjafar taka að sér að skipuleggja og undirbúa kappræður og nú var umræðuefnið „Are Social Media Reliable?Við búum svo vel að eiga úrvalslið í ræðumennsku og fengum við því nemendur úr málfundafélaginu Kormáki til þess að skipuleggja kappræðurnar, sjá um þjálfun þeirra nemenda sem tóku þátt og stýra kappræðunum. Skemmst er frá því að segja að kappræðurnar tókust frábærlega vel, ræðumenn voru vel undirbúnir og öruggir en skemmtilegast var að sjá frábæra samvinnu nemenda og liðsanda í báðum liðum.

Veðrið lék við okkur nánast allan tímann og skartaði Reykjanesið sínu fegursta þegar við skoðuðum okkur um á gosstöðvunum og við hverasvæðið Seltún og norðurljósin létu sjá sig að kveldi. Þingvellir voru ægifagrir í haustlitunum og Gullfoss og Geysir voru myndaðir í bak og fyrir þegar hópurinn lagði land undir fót á Suðurlandið.

Síðasta daginn heimsóttum við RÚV og þar var tekið hlýlega á móti okkur. Við kíktum á undirbúning fyrir beina útsendingu úr stúdíói A en söfnun fyrir Grensásdeild var þá um kvöldið, settumst í settið í Kastljósi og mátuðum okkur við borðið í fréttastúdíóinu. Dagurinn endaði svo með heimsókn á Þjóðminjasafnið og rölti í blíðviðrinu í Reykjavík.

Eins og venja er í svona heimsóknum er haldið lokahóf þar sem viðurkenningarskjöl eru afhent, veislumatur snæddur og svo er dansað fram eftir kvöldi. Það var mikið fjör en erfitt að kveðja góða vini. Það var mikið rætt í kennarahópnum hve góðir gestgjafar nemendur okkar voru. Þeir voru áhugasamir um að kynnast gestunum og sýna þeim landið okkar og hlúðu vel að þeim á allan hátt.

Við í íslenska kennarahópnum erum afar stoltar af okkar nemendum. Vikan var lærdómsrík á margan hátt. Nemendur lærðu margt um það sem þema verkefnisins snýr að en ekki síður þjálfuðu þeir sig í mannlegum samskiptum, víkkuðu sjóndeildarhringinn, kynntust nýjum vinum bæði erlendum en einnig samnemendum úr skólanum sem þeir þekktu ekki áður.