Frá útskrift haustannar

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram föstudaginn 17. desember. Að þessu sinni útskrifaðist 51 nemandi; 39 stúdentar, 3 úr verknámi, 1 úr starfsnámi og 8 af framhaldsskólabraut. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Konur voru 26 en karlar 25. Alls komu 37 úr Reykjanesbæ, 5 úr Grindavík, 4 úr Suðurnesjabæ og 3 úr Vogum. Þá kom einn frá Vopnafirði og Reykjavík.

Að þessu sinni var útskriftin með breyttu sniði vegna fjöldatakmarkana en fjöldi gesta var takmarkaður. Til að koma til móts við þá sem ekki gátu sótt athöfnina var dagskránni streymt. Guðlaug Pálsdóttir skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðmundur Grétar Karlsson aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Sigrún Björk Sigurðardóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ægir Karl Ægisson áfangastjóri flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju fluttu nýstúdentar tónlist við athöfnina en þar lék Ása Bríet Bergsdóttir á píanó og Árni Þór Guðnason á gítar.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Dawid Jan Laskowski fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur á íþróttabraut, Hanna Felstau Róbertsdóttir fyrir viðskiptafræði, Jane María Ólafsdóttir fyrir sálfræði og Kristinn Anton Hallvarðsson fyrir árangur sinn í tölvutækni. Vilborg Jónsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í efnafræði og stærðfræði, Lára Ösp Ásgeirsdóttir fyrir ensku og stærðfræði, Helena Aradóttir fyrir viðskiptafræði og stærðfræði og Aþena Ýr Ólafsdóttir fékk viðurkenningar fyrir ensku og fata- og textílgreinar. Heiðar Snær Ragnarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í efnafræði og verðlaun frá Verkfræðistofa Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Tanja Alexandra Sigurðardóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í efnafræði og líffræði og gjöf frá þýska sendiráðinu fyrir góðan árangur í þýsku. Sigrún Björk Sigurðardóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í sálfræði og fata- og textílgreinum og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum. Anna Lilja Ásgeirsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í ensku og líffræði, hún fékk gjafir frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum og stærðfræði og raungreinum, verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði, gjöf frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum og verðlaun frá Hinu íslenska stærðfræðifélagi fyrir árangur í stærðfræði.

Guðlaug Pálsdóttir skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Anna Lilja Ásgeirsdóttir styrkinn. Hún útskrifaðist af raunvísindabraut með meðaleinkunnina 9,15. Anna Lilja hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Kara Petra Aradóttir, Oddný Perla Kristjánsdóttir, Rebekka Ír Jónsdóttir og Valý Rós Hermannsdóttir fengu allar 30.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Að lokum sleit Guðlaug Pálsdóttir skólameistari haustönn 2021.

Myndasafn frá útskrift haustannar 2021