Frá útskrift haustannar

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram miðvikudaginn 21. desember. Fresta þurfti útskriftinni um sólarhring vegna ófærðar og veðurs. Að þessu sinni útskrifuðust 59 nemendur; 39 stúdentar, 8 úr verknámi, 16 úr starfsnámi og 2 af framhaldsskólabraut. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Konur voru 36 en karlar 23. Alls komu 43 úr Reykjanesbæ, 9 úr Suðurnesjabæ, 3 úr Grindavík og 3 úr Vogum og tveir úr Kópavogi.

Dagskráin fór fram á sal skólans og var með hefðbundnu sniði en athöfninni var einnig streymt. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Stefán Júlían Sigurðsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Þorvaldur Sigurðsson íslenskukennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en þar lék Magnús Már Newman á slagverk við undirleik Sigrúnar Gróu Magnúsdóttur á píanó. Magnús er nemandi í skólanum en þess má geta að Sigrún Gróa er móðir hans og kennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Júlía Sól Carmen Rafaelsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í spænsku og sálfræði og hún hlaut einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum. Swee Wah Liew fékk viðurkenningu frá Landsbankanum fyrir góðan árangur á sjúkraliðabrú.

Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Júlía Sól Carmen Rafaelsdóttir styrkinn. Júlía Sól hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hún útskrifaðist af félagsvísindabraut.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Dzana Crnac, Helga Sóley Waagfjörð, Júlía Björk Jóhannesdóttir og Aldís Ögn Arnardóttir fengu allar 30.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari haustönn 2022.

Í myndasafninu eru myndir frá útskriftinni.