Frá kynningarfundi fyrir foreldra nýnema

Þriðjudaginn 26. ágúst var kynningarfundur fyrir foreldra nýnema. Fundurinn var haldinn á sal skólans og var einnig streymt á YouTube.

Kristján Ásmundsson skólameistari setti fundinn og bauð gesti velkomna. Elín Rós Bjarnadóttir, Rósa Guðmundsdóttir og Þjóðbjörg Gunnarsdóttir námstjórar sögðu frá vef skólans og kynntu skólakerfið Innu. Stjórn nemendafélagsins NSF kynnti starfsemi félagsins og sagði frá því helsta sem verður á dagskrá í vetur. Elínborg Ingvarsdóttir nýráðinn tómstundafulltrúi skólans sagði frá sínu starfi. Þá var ný stjórn Foreldrafélags FS kosin. 

Að dagskránni lokinni gafst gestum tækifæri til að ræða við umsjónarkennara barna sinna, skólastjórnendur, námsráðgjafa og félagsráðgjafa skólans.

Athugið að enn er hægt að horfa á upptöku af fundinum á YouTube-rás skólans en á fundinum komu fram margvíslegar gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra.