Frá kynningarfundi fyrir foreldra

Þriðjudaginn 5. september var kynningarfundur fyrir foreldra nýnema. Fundurinn var haldinn á sal skólans og var einnig streymt á YouTube.

Kristján Ásmundsson skólameistari setti fundinn og bauð gesti velkomna. Margrét Lilja Guðmundsdóttir hjá Planet Youth ræddi svo um heilsu og líðan ungmenna og hlutverk foreldra. Hún ræddi m.a. um skjátíma, svefn og neyslu orkudrykkja og nikótínpúða. Elín Rut Ólafsdóttir áfangastjóri sagði frá vef skólans, Rósa Guðmundsdóttir námstjóri kynnti skólakerfið Innu og Bruno Birins matreiðslumaður sagði frá mötuneyti skólans. Þeir Leó Máni og Hermann Borgar sögðu frá starfsemi nemendafélagsins NFS og Guðlaug María Lewis sagði frá Foreldrafélagi FS og hvatti foreldra nýnema til að taka þátt. Að dagskránni lokinni gafst gestum tækifæri til að ræða við umsjónarkennara barna sinna, skólastjórnendur, námsráðgjafa og félagsráðgjafa skólans.

Í myndasafninu eru nokkrar myndir frá foreldrafundinum.