Erasmus-ferð til Finnlands

Eins og margir eflaust vita tekur Fjölbrautaskóli Suðurnesja um þessar mundir þátt í Erasmus+ verkefninu „Cultural Heritage in a European Context“. Auk FS taka þrír aðrir skólar frá Spáni, Finnlandi, og Ungverjalandi þátt í verkefninu. Verkefnið snýst um að fræða nemendur um evrópska menningu, mikilvægi hennar og uppruna, auk þess að skapa tengsl milli nemenda í Evrópu.

Fyrr í maí fóru fimm nemendur í fylgd tveggja kennara til Pori í Finnlandi. Þau Ingibjörg Sara, Rebekka Ír, Aníta Sigga, Vilhjálmur Logi og Finnbogi Páll héldu af stað með Kristjönu enskukennara og Írisi myndlistakennara. Skipulögð var fimm daga dagskrá sem hófst með móttöku í skólanum Winnova. Winnova er 5000 nemenda skóli þar sem hægt er að læra nánast hvað sem fólki dettur í hug!

Dagskráin var ekki af verri endanum! Nemendur og kennarar fengu að kynnast ýmsum hliðum á menningu Finnlands. Farið var til Rauma en þar er heilt þorp af fornum timburhúsum en þorpið er skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Í Rauma fengu nemendur okkar einnig að heimsækja útibú skólans þar sem siglingafræði og sjómennska eru kennd. Þar fengu þeir að spreyta sig á siglinum í hermi sem notaður er í kennslu.

Farið var út í Reposaari eyju þar sem við heimsóttum gamalt hernaðarvirki sem notað var til varnaræfinga. Þá var einnig farið á ströndina en sundfötin voru geymd þar sem enn var kalt. Nemendur heimsóttu gamla járnsmiðju þar sem hægt var að fylgjast með mönnum við vinnu sína og jafnvel versla gripi úr smiðjunni. Haldið var til Joutsijärvi vatns þar sem nemendur fengu að róa um vatnið. Þar sýndu nemendur okkar hvernig alvöru víkingar munda árarnar. Því næst var haldið í sumarbúðir við vatnið þar sem nemendur fóru í saunu, skelltu sér til sunds í köldu vatninu og enduðu með grilli.

Nemendur FS voru, eins og svo oft áður, til fyrirmyndar. Krakkarnir voru opnir og tilbúnir til að kynnast nýju fólki. Einnig sýndu þau mikinn áhuga á þeim verkefnum og heimsóknum sem búið var að skipuleggja fyrir okkur.

Næsta heimsókn fer fram í september en þá koma 15 nemendur, ásamt kennurum, í heimsókn til Íslands. Þau munu þá taka þátt í fimm daga dagskrá þar sem þau fá að kynnast íslenskri menningu og sögu.