Nemendur og kennarar frá Ungverjalandi, Finnlandi og Spáni í Erasmus+ verkefni í FS

Hópurinn allur við Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Hópurinn allur við Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu Cultural Heritage in a European Context. Markmið verkefnisins er að gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að bera virðingu fyrir menningu sinni og annarra og jafnframt auka víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðrum menningarheimum. Nemendur auka tölvufærni sína með notkun nýrra forrita, bæta tungumálafærni og fræðast um siði, menningu og markverða staði í samstarfslöndunum.

Á vorönn 2022 voru farnar tvær ferðir, önnur til Spánar en hin til Finnlands. Fimm nemendur ásamt tveimur kennurum fóru í hvora ferð. Á vorönn 2023 munu svo fimm nemendur í viðbót og tveir kennarar ferðast til Ungverjalands.

Í síðustu viku var komið að okkur að vera gestgjafar í verkefninu og komu hingað hópar nemenda frá Spáni, Finnlandi og Ungverjalandi ásamt kennurum sínum. Nemendurnir gistu hjá fjölskyldum nemendanna sem taka þátt í verkefninu. Dagarnir voru viðburðarríkir og margt var skoðað. Meðal annars fór hópurinn á Rokksafnið, í Víkingaheima og ferðaðist um helstu náttúruperlur Reykjaness. Förinni var einnig heitið að skoða náttúrperlur á Suðurlandi eins og Þingvelli, Gullfoss, Geysi og komið var við á orkusýningunni í Ljósafossvirkjun. Einn dagur var nýttur í að kynnast höfuðborginni og þá var m.a. farið í Flyover Iceland, Perluna og komið við í hesthúsum þar sem hægt var að prófa að fara aðeins á bak. Síðasta daginn unnu nemendur rafrænt tímarit um heimsóknina sem verður aðgengilegt fljótlega á heimasíðum skólanna. Dagskránni lauk með glæsilegu lokahófi á sal FS þar sem snæddur var ljúffengur matur og veitt voru viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku. Gestirnir kvöddu FS og Ísland á laugardaginn og var mikil ánægja meðal þeirra með vikuna hjá okkur. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr heimsókninni.