Íþróttavika Evrópu

FS tekur þátt í Íþróttaviku Evrópu (European Week of Sport) sem er haldin formlega dagana 23. – 30. september nk. í yfir 30 Evrópulöndum, en vegna Covid-19 verður fyrirkomulagið aðeins öðruvísi en áætlað var í byrjun. 

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Evrópubúar geta sameinast undir slagorðinu #BeActive. Þetta árið verður áhersla lögð á að virkja framhaldsskóla landsins til að vera með, en verkefnið er unnið í samvinnu við ÍSÍ.

FS vill hvetja alla nemendur til að vera virkir í hreyfingu þessa viku sem og allar aðrar vikur á lífsleiðinni, en það er undir okkur sjálfum komið að gæta að heilsunni. Við íþróttakennarar í FS höfum tröllatrú á því að hreyfingin bæti, hressi og kæti.

Dansararnir Ástrós Traustadóttir og Sigurður Atlason hafa sent frá sér Tiktok myndband sem farið er í loftið á Beactiveiceland og fleiri reikningum á Tiktok. Klippa af þessu myndbandi fer líka inn á Facebook og Instagram undir nafninu Beactiveiceland. Hægt er að vinna veglega vinninga með því að taka þátt og dansa Tiktok dansinn og merkja hann Beactiveiceland. Það er líka hægt að vinna veglega vinninga með því að deila mynd af hreyfingu á Facebook Beactiveiceland og með því að nota #Beactiveiceland á Instagram.

Þegar við fáum að nota íþróttahúsið á ný, þá munu allir nemendur í íþróttum í FS fá kynningu á blakíþróttinni, en Kenzey þjálfari hjá blakdeild Keflavíkur mun kíkja til okkar.

Gera má ráð fyrir að fleiri skemmtilegir atburðir sem hvetja til hreyfingar gætu bæst við, en við íþróttakennarar í FS viljum hvetja þig og þína fjölskyldu til að taka þátt í íþróttavikunni undir slagorðinu #BeActive.

Kveðja frá íþróttakennurum í FS, Kiddý, Andrési, og Gunnari Magnúsi