Áhrifamikil leiksýning á sal

Leikritið Góðan daginn, faggi var sýnd á sal föstudaginn 24. febrúar. Hópurinn sem stendur að verkinu kallar það sjálfsævisögulegan heimildasöngleik þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Verkið tekst á við fyrirbæri eins og skömm og innhverfa fordóma með húmor og einlægni að vopni. Höfundar sýningarinnar eru Bjarni Snæbjörnsson leikari, Axel Ingi Árnason tónskáld og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri. Verkið er sýnt í Þjóðleikhúsinu en hefur einnig verið á ferð um landið og hefur m.a. verið sýnt í skólum.

Þeir Bjarni og Axel Ingi fluttu verkið fyrir fullum sal en Kristín Waage sá um tæknistjórn. Salurinn var troðfullur og rúmlega það og má gera ráð fyrir að rúmlega 500 manns hafi verið á sýningunni. Nemendur fylgdust með af miklum áhuga og það er gaman að segja frá því að það hefði mátt heyra saumnál detta þá klukkustund sem sýningin stóð. Að verkinu loknu ræddu Bjarni og Axel Ingi við nemendur og svöruðu spurningum.

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna og skemmtilega og áhrifamikla sýningu.