Fyrir 10. bekkinga

    Einkenni Fjölbrautaskóla Suðurnesja 

 • FS er skóli fyrir alla
 • Áfangakerfi en bekkjakerfi fyrir nýnema
 • Fjölbreytt félagslíf
 • Mikið val um námsleiðir
 • Sveigjanleiki í námshraða
 • Mikið val um námsgreinar
 • Jákvæð samskipti og gagnkvæm virðing
 • Markviss undirbúningur fyrir störf á vinnumarkaði og/eða framhaldsnám

 

 

Spurt og svarað   

Hvar er skólinn staðsettur?

  Fjölbrautaskóli Suðurnesja er staðsettur við Sunnubraut 36 í Reykjanesbæ, í nágrenni við sundlaugina. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er skóli Suðurnesjamanna. Nemendur hans eru úr öllum byggðarlögum svæðisins auk þess sem alltaf eru í skólanum nokkrir nemendur annars staðar frá. Sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum (Reykjanesbær, Grindavík, Suðurnesjabær og Vogar) reka skólann í samstarfi við ríkisvaldið.

Er bekkjakerfi eða áfangakerfi í skólanum?

   Fjölbrautaskóli Suðurnesja er í grunninn með áfangakerfi. Í áfangakerfi er nemendum ekki raðað í bekki heldur sitja þeir í nokkrum ólíkum áföngum/fögum á hverri önn. Frá haustönn 2023 verður nýnemum raðað í bekki og er það tilraunaverkefni til eins árs. Bekkirnir miðast að mestu leyti við námsbrautir en einnig getur námsstaða nemenda haft áhrif. Nýnemar þurfa ekki að velja áfanga á fyrsta árinu. Að vori velur nemandinn áfanga fyrir næstu haustönn og fer þá yfir í áfangakerfi. 
   Skólaárið skiptist í tvær annir, haustönn og vorönn. Brautskráningar eru tvisvar á ári, í desember við lok haustannar og í maí í lok vorannar. Við lok annar eru þreytt próf í námsefninu eða einkunn byggð á símati yfir önnina. Nemandi, sem staðist hefur áfangann með tilskildum árangri, fær ákveðinn einingafjölda fyrir. Þannig safnar nemendandinn einingum með hverjum loknum áfanga þar til hann hefur lokið námi hvort sem um er að ræða bóknám eða verk- og starfsnám. Valfrelsi er talið einn helsti kostur áfangakerfisins. Nemendur á sumum brautum geta að nokkru leyti ráðið því hvaða greinar þeir leggja stund á hverja önn og hagað námshraða sínum að eigin vali innan vissra marka.

Hver eru inntökuskilyrðin?

   Inntökuskilyrðin eru mismunandi eftir brautum
sjá hér

Hvaða námsbrautir eru í boði?

   Fjölbrautaskóli Suðurnesja býður upp á fjölbreytt nám þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi
sjá hér

Hvað eru margir nemendur í skólanum?

  Fjölbrautaskóli Suðurnesja er stór skóli með um 900 nemendur á fjölmörgum brautum.

Hver eru innritunargjöldin?

    Fullt innritunargjald í FS er 17.500 kr
sjá hér

Hvernig er námsmatið í skólanum?

  Námsmatið byggir á símati og á lokaprófum. Símat þýðir dreift álag yfir alla önnina og mikið um verkefnavinnu og smærri próf. Nemendur geta komist hjá lokaprófum í sumum áföngum með því að ná ákveðinni einkunn yfir önnina. Í ákveðnum áföngum eru lokapróf og gilda þau yfirleitt 40-60% á móti verkefnavinnu yfir önnina. Í hverjum og einum áfanga er námsmatið útlistað í kennsluáætlun.

Hvernig er félagslífið í skólanum?

  Félagslífið er fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Get ég fengið framhaldsskólaáfanga úr öðrum skólum metna í FS?

    Já áfangastjórar meta áfanga úr öðrum skólum ef áfanginn passar inn í námskrá og námsbraut nemandans, sjá nánar
Sjá hér
Get ég fengið tónlistar-, listdans- eða myndlistarnám metið?
  Já nemendur sem óska eftir mati þurfa að hafa samband við áfangastjóra.

Má ég sleppa íþróttum ef ég æfi íþróttir?

  Já nemendur sem stunda umfangsmikla hreyfingu á vegum sérsambands og/eða íþróttafélags innan ÍSÍ (og er þátttakandi í Íslands- og/eða bikarmótum á þeirra vegum) geta fengið það metið.

Með umfangsmiklum íþróttum er átt við að nemandi sé að æfa íþrótt sína a.m.k. 4 sinnum í viku og undir leiðsögn menntaðs þjálfara/íþróttakennara.

Hvernig er þetta gert?

1. Í upphafi annar sendir þjálfari Elínu Rut Ólafsdóttur elin.olafsdottir@fss.is upplýsingar um íþróttaiðkun nemanda s.s. hve oft og lengi í viku er æft og stutta lýsingu á æfingaplani annarinnar.

2. Þegar þjálfari hefur sent Elínu þessar upplýsingar kemur nemandinn til Elínar og hún skráir viðkomandi í íþróttir, ÍÞRÓ1ÍÆ01 áfanga í INNU. Nemandinn fær einnig blað sem hann geymir þar til í lok annarinnar, en þá skrifar þjálfari þar undir til að staðfesta að viðkomandi hafi stundað æfingar á önninni.

3. Mikilvægt er að nemendur muni eftir að skila blaðinu UNDIRRITUÐU í lok annarinnar til að fá eininguna.

Þetta er auglýst í skólanum og nemendur fá tölvupóst um þetta í upphafi anna.

Er afreksíþróttasvið í FS?

  Já FS býður upp á afreksíþróttasvið. FS vill styðja við nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksíþróttamanna, samhliða námi á skólatíma.
  Það er misjafnt eftir önnum hvaða íþróttagreinar hafa verið í boði. Á þessu skólaári var knattspyrna og körfubolti. Á næsta skólaári er vilji fyrir því að bjóða upp á fleiri íþróttagreinar.
 • Nemendur skrá sig á braut og eru á íþróttaafrekssviði samhliða brautinni
 • Nemendur eru virkir iðkendur í íþróttafélagi og stundi sína íþrótt af metnaði
 • Meðmæli frá íþróttafélagi
 • Nemendur á íþróttaafrekssviði greiða hefðbundin skólagjöld og að auki kr. 30.000 á önn.

Er tekið tillit til námserfiðleika, t.d. lesblindu og ADHD?

  Já en þá er mikilvægt að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa í upphafi skólagöngu svo hægt sé að finna út hvernig aðstoð virkar best. Ef nemendur vilja fá sérúrræði í prófum eða taka próf í sérstofu eiga þeir kost á því. Allir nemendur fá lengri próftíma í lokaprófum og þarf ekki að óska sérstaklega eftir því. Gott er að hengja greiningu við umsókn eða koma með afrit greiningar til námsráðgjafa við upphaf skólagöngu.

Þarf ég að hafa fartölvu til umráða sem nemandi?

  Nei en það er æskilegt að nemendur hafi aðgang að tölvu heima hjá sér. Nemendur eiga kost á því að fá lánaðar fartölvur á bókasafni skólans á skólatíma.