Nám í rafvirkjun hefst á fjórum önnum í grunnnámi rafiðnar en þegar þeim er lokið taka við tvær annir í rafvirkjun. Rafvirkjanám er þriggja ára nám auk starfsþjálfunar. Haldið er utan um starfsþjálfun með rafrænni ferilbók sem nemendur þurfa að ljúka áður en þeir útskrifast. Námið er bæði verklegt og bóklegt og að námi loknu geta nemendur tekið sveinspróf og byrjað að vinna sem rafvirkjar eða haldið áfram í frekara nám. Þetta nám er góður grunnur hvort sem farið er beint út á vinnumarkaðinn eða sem undirbúningur fyrir m.a. tækninám á háskólastigi.
Um brautina
- Nám í rafvirkjun er bæði bóklegt og verklegt. Námið er 255 einingar og skipulagt sem 6 annir í skóla ásamt starfsþjálfun.
- Ef nemandi hefur ekki lokið 1. ári í grunnnámi rafvirkjunar með viðunandi árangri er hugsanlegt að hann fái ekki að hefja nám á 2. ári fyrr en hann hefur lokið sérgreinum brautar 1. árs.
- Að loknu grunnnámi rafiðna getur nemandi farið samningsleið sem felur í sér að hann getur hafið störf hjá meistara. Meistari og nemandi votta hæfniþrep sem áskilin eru í ferilbókinni. Einnig er hægt að fara skólaleið en þá útvegar skólinn nemanda pláss hjá meistara. Ef skólaleiðin er farin er nemandinn launalaus. Ferilbókin gildir í hámark 48 vikur. Hér eru nánari upplýsingar og skráning í ferilbókina.
- Til að ljúka námi í rafvirkjun þarf að ljúka námi í skóla ásamt rafrænni ferilbók sem heldur utan um vinnustaðanám/starfsþjálfun nemanda. Eftir útskrift getur nemandinn þreytt sveinspróf.
- Nánari upplýsingar um brautina má sjá á námskrá.is.
Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði á rafvirkjabraut eru að hæfnieinkunn í íslensku og stærðfræði sé að lágmarki C+ við lok grunnskóla. Ef fleiri sækja um nám á brautinni en skólinn getur tekið við getur inntökuviðmið orðið hærra en lágmarkið.