Samstarf heimila og skóla

Skólinn leggur ríka áherslu á að góð samskipti séu milli heimila og skóla.

  • Til að kynna foreldrum nýnema skólastarfið er haldinn fundur í upphafi skólaárs þar sem skólinn, nemendafélagið og helsta starfsfólk er kynnt.
  • Allir kennarar skólans hafa viðtalstíma sem foreldrar geta nýtt sér til að leita upplýsinga.

Helsta upplýsingaveita skólans er vefur Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þar er að finna greinargóðar upplýsingar um skólann og starfsemi hans. Jafnframt námsframboð og reglur og hagnýtar upplýsingar um nám í skólanum. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er hverjum framhaldsskóla skylt að gefa út skólanámskrá með upplýsingum um skólann og námsframboð. FS-vefurinn gegnir hlutverki skólanámskrár Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólinn er einnig á Facebook og Instagram.

Samstarf við aðra skóla

  • Á hverjum vetri koma nemendur úr 9. bekk grunnskólanna á svæðinu í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fá kynningu á honum. Á haustin fara námsráðgjafar í heimsókn til nemenda í 10. bekk grunnskólanna og kynna námsframboð skólans. Ef grunnskólarnir eða foreldrafélög þeirra óska eftir kynningu er starfsfólk skólans reiðubúið að veita hana.
  • Á hverri vorönn gefst nemendum úr 8., 9. og 10. bekk kostur á að taka þátt í stærðfræðikeppni grunnskólanna sem haldin er í skólanum. Þátttaka hefur verið góð sem eflir vonandi áhuga á stærðfræði.
  • Nemendum sem hafa staðið sig vel í grunnskóla býðst að taka valáfanga í Fjölbrautaskóla Suðurnesja (stærðfræði, enska, spænska, forritun og verknám) og hafa ríflega hundrað nemendur af svæðinu nýtt sér það á hverju ári.
  • Skólastjórnendur grunnskólanna og Fjölbrautaskóla Suðurnesja (SkóSuð) hafa með sér samstarf um skólamál. Þetta er góður vettvangur til að skiptast á upplýsingum og efla tengsl á milli skólastiga.
  • Til marga ára hefur verið öflugt samstarf á milli Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Skólastjórnendur skólanna þriggja hittast reglulega til skrafs og ráðagerða um fagleg málefni tengd skólastarfi en auk þess hittast kennarar og annað starfsfólk á um það bil þriggja ára fresti.
  • Fulltrúar háskólanna á Íslandi koma á hverri önn með kynningu á námsframboði fyrir útskriftarnemendur.
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið í samstarfi við MSS, Keili, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Fisktækniskóla Íslands.
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja er aðili að Model European Parliament – Baltic Sea Region sem eru samtök sem standa fyrir fjölþjóðlegri leiðtogaþjálfun þar sem Evrópuþingið er leikið eftir. Aðilar að MEP-BSR eru skólar frá 10 löndum í kringum Eystrasalt og í Norður-Evrópu. Að auki hafa nemendur frá nokkrum öðrum löndum komið sem gestir. Fjölbrautaskóli Suðurnesja hélt MEP-BSR þing vorið 2013 og voru þátttakendur í það skiptið yfir 60 frá 12 löndum.


Ýmis önnur fjölþjóðleg samstarfverkefni hafa verið og eru í gangi.

Síðast breytt: 7. september 2020