Styrkir til Grindvíkinga afhentir

Mánudaginn 18. mars afhentu fulltrúar nemendafélagsins NFS og Fjörheima afraksturinn af góðgerðartónleikum og góðgerðarviku NFS. Alls söfnuðust 1.350.000 kr. sem renna til Grindvíkinga.

Tónleikarnir voru í Hljómahöllinni þann 7. mars og þar kom fjöldi tónlistarmanna fram. Það voru GDRN, Mugison, Valdimar, Unnsteinn Manuel, Klara Elías, Sibbi og hljómsveitirnar Demo og Nostalgía sem báðar eru úr Reykjanesbæ. Tónleikarnir voru frábærir og áhorfendur voru vel með á nótunum og tóku mikinn þátt. Einnig var safnað í góðgerðarviku NFS. Þar söfnuðu nemendur með ýmis konar áheitum og sölu.

Alls söfnuðust 1.350.000 kr. sem renna til Grindvíkinga, annars vegar til Styrktarsjóðs Grindavíkurkirkju og hins vegar til Rauða krossins. Það voru Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík og Geir Sævarsson frá Þjónustumiðstöð Rauða krossins sem tóku við styrkjunum sem námu 675.000 kr. hvor. Þau þökkuðu kærlega fyrir og lýstu ánægju sinni með framtakið og þá samstöðu sem ungmenni á svæðinu sýndu með því.