Virðing-Samvinna-Árangur

Read in english  EnglishVeftré - Skrifstofa

 

 

 

Námsráðgjöf

 

 

Námsráðgjöf

Námsráðgjafar:

 

EsterTorsteins2019  Sunna2015 GudrunJona2015 Sesselja2015
Ester Þorsteinsdóttir Sunna Gunnarsdóttir
(
í leyfi)
Guðrún Jóna Magnúsdóttir Sesselja Bogadóttir

 

Hægt er að panta tíma hjá námsráðgjöfum á skrifstofu skólans eða hjá námsráðgjöfum.

Hér má finna upplýsingar um ráðgjöf og mat á fyrra námi fyrir þá sem koma úr öðrum skólum.

Náms- og starfsráðgjafar eru fyrst og fremst málsvarar og talsmenn nemenda. Náms- og starfsráðgjafar gæta þagmælsku um erindi nemenda. Hægt er að panta tíma á skriftstofu skólans, einnig eru nemendur velkomnir án bókunar þegar námsráðgjafi er laus.

Námsráðgjöf Fjölbrautaskóla Suðurnesja veitir nemendum skólans margvíslegan stuðning á meðan á námi stendur og hefur að markmiði að skapa hverjum nemanda sem bestar aðstæður í námi.

Stuðningur felst m.a. í :

 • Ráðgjöf um vinnubrögð í námi s.s.:
 • - Námstækni
  - Tímastjórnun
  - Heimanám
 • Ráðgjöf varðandi náms og starfsval
 • Ráðgjöf varðandi prófkvíða
 • Ráðgjöf fyrir þá sem eru með sértæka námsörðugleika s.s.:
 • - Lestrarerfiðleikar
  - Fötlun eða hömlun
 • Persónulegri ráðgjöf og aðstoð sálfræðings varðandi t.d.:
 • - Þunglyndi
  - Samskiptavanda
  - Vímuefnanotkun
  - Námsleiða og fl.
 • Samstarf foreldra og skóla


Vinnubrögð - Að ná árangri í námi
Nám á framhaldsskólastigi gerir oft aðrar kröfur til nemenda en nám í grunnskóla. Meiri kröfur eru gerðar um sjálfstæði nemenda og eigið vinnuframlag. Nemendur þurfa því oft að endurskoða námsvenjur sínar og námstækni.

Að ná árangri í námi er eftirsóknarvert, eitthvað sem allir námsmenn sækjast eftir. Það að ná árangri er í sjálfu sér hvati til áframhaldandi náms. Margir telja að til að ná árangri í námi þurfi einstaklingurinn að vera mjög vel gefinn en rannsóknir hafa sýnt það að vera góðum gáfum gæddur hjálpar til í námi en þegar upp er staðið er það áhuginn og vinnusemin sem skiptir mestu máli.

Ýmislegt má gera til að auka námsárangur svo sem: Mætingar, skipulag, áhugi, viðhorf og metnaður


Náms- og starfsval

Námsráðgjafi stuðlar að auknum skilningi nemenda á eigin stöðu og möguleikum í námi og starfi og þjálfar þá til sjálfsábyrgðar. Námsráðgjafi safnar og miðlar upplýsingum um nám og störf og sinnir tengslum við önnur skólastig og atvinnulíf.

Val á námi eða starfi er ekki ein ákvörðun á lífsleiðinni heldur margar samhangandi ákvarðanir. Ákvörðunin byggist á sjálfsþekkingu nemandans. Hann þarf að skoða sjálfan sig og finna sínar sterku og veiku hliðar. Sterku hliðarnar á að nota óspart en veiku hliðarnar þarf að styrkja.

Áhugasviðið er oftast undirstaða að vali á námsbraut í skólanum og að starfsvali framtíðarinnar. Til að kanna áhugasvið sitt geta nemendur fengið að taka áhugasviðspróf eða þeir geta prófað að taka einn áfanga í því fagi sem þá fýsir að kynna sér. Áhugakannanir eru fyrir 18 ára og eldri.


Prófkvíði

Kvíði fyrir próf er eðlilegur og er í sjálfu sér æskilegur því hann virkar sem hvati í námi. Þessi kvíði getur þó farið úr böndunum og er þá farinn að virka hamlandi á einstaklinginn. Námsráðgjafi býður nemendum upp á námskeið einu sinni á önn sem hafa að markmiði að kenna nemendum ráð til að fást við og ná tökum á prófkvíða. Nemendum býðst einnig einstaklingsráðgjöf.

Hér eru nokkrar ábendingar um hvernig hægt er að draga úr prófkvíða, s.s. undirbúningur, jákvæðar væntingar og hugarfar.


Sértækir námsörðugleikar

Nemendur sem eiga við sértæka námsörðugleika að etja s.s. í lestri, ritun eða öðru geta fengið aðstoð hjá námsráðgjafa við að sækja um aðgang að Hljóðbókasafninu. Einnig geta viðkomandi nemendur sótt um stækkað letur, próf lesið upp á MP3 spilara eða aðra aðstoð sem þörf er á.

Nemendur sem vilja láta kanna hvort um sértæka námsörðugleika er að ræða geta leitað til námsráðgjafa sem getur þá bent á leiðir varðandi greiningu.


Persónuleg ráðgjöf og aðstoð sálfræðings

Námsráðgjafi er trúnaðarmaður og málsvari nemenda og aðstoðar þá við lausn persónulegra vandamála sem hindra þá í námi. Námsráðgjafi er bundinn þagnarskyldu um öll einkamál nemenda.

Nemendur sem telja sig eiga við einhverskonar vanlíðan að stríða, s.s. þunglyndi, samskiptavanda, vímuefnanotkun eða námsleiða geta leitað til námráðgjafa. Skólinn býður nemendum einnig upp á þjónustu sálfræðinga.


Samstarf foreldra og skóla
Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt að samstarf foreldra og skóla skiptir verulegu máli fyrir árangur nemenda í framhaldsskólum. Nemendur sem eiga vísan stuðning og hvatningu heima fyrir og í skóla gengur betur en nemendum sem ekki hafa stuðning.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja vill gjarnan vera í góðu samstarfi við heimilin. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með námi barna sinna og ungmenna og sýna því áhuga, en það skilar árangri.

Foreldrum er ávallt velkomið að hafa samband og leita upplýsinga um námið og skólann.

 

                                               Heilsueflandi2019                         

                                   Erasmus
SFR2018 SFR2017 SFR2016 SFR2015 SFR2014