Virðing-Samvinna-Árangur

Read in english  EnglishVeftré - Skrifstofa

 

 

 

Starfsmannastefna

 

Starfsmannastefna

Meginmarkmið:
Markmið starfsmannastefnu Fjölbrautaskóla Suðurnesja er að styrkja og laða að öflugt starfsfólk sem veitir nemendum þá allra bestu þjónustu sem völ er á, í samræmi við lög um framhaldsskóla og markmið skólans.

Deilimarkmið:

 • Að laða að hæft starfsfólk og halda því.
 • Að tryggja starfsfólki góð starfsskilyrði og möguleika á fræðslu og endurmenntun til þess að viðhalda færni og þróast í starfi.
 • Að tryggja að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki innan skólans.
 • Að stuðla að uppbyggilegri og faglegri umræðu um skólamál.
 • Að starfsmenn leitist við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þeirra með því að tileinka sér nýja starfshætti í samræmi við þróun og kröfur samfélagsins og séu opnir fyrir nýjungum.
 • Að starfsfólk sé vel upplýst um verkefni sín og skyldur.
 • Að stuðla að öflugu upplýsingaflæði.
 • Að styðja vel við nýja starfsmenn.
 • Að félagslíf starfsmanna sé öflugt og fjölbreytt.

Aðgerðaráætlun:

 • Bjóða upp á gott starfsumhverfi.
 • Bjóða upp á fjölskylduvænan vinnustað með því að sýna sveigjanleika og taka tillit til fjölskylduaðstæðna eins og hægt er, t.d. við töflugerð og skipulag vinnu.
 • Skapa tækifæri til endurmenntunar, s.s. fyrirlestra, námskeið, ráðstefnur, vettvangsheimsóknir, leshópa og vettvangsstoð (speglun).
 • Tryggja gott upplýsingaflæði með útgáfu Andapósts, tölvupósti til starfsmanna og fundum.
 • Skapa svigrúm til samvinnu innan dagvinnutíma.
 • Hvetja til uppbyggilegra skoðanaskipta og lausnamiðaðrar umræðu.
 • Skipuleggja fagfundi, sviðsfundi og kennarafundi vel og halda skrá yfir niðurstöður og ályktanir þeirra.
 • Stuðla að faglegum umræðum m.a. á samfélagsmiðlum.
 • Sviðsstjórar taki á móti nýjum kennurum áður en kennsla hefst og fari í gegnum gátlista tengdan starfinu.
 • Handbók fyrir nýja kennara sé afhent þegar þeir hefja störf og hún uppfærð reglulega.
 • Að skólinn styðji við öflugt og virkt starfsmannafélag.

Síðast endurskoðað í september 2017.

Áætlun gegn einelti

 

Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing
Það er skýr stefna Fjölbrautaskóla Suðurnesja að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum. Allra leiða verður leitað til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Fjölbrautaskóli Suðurnesja á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og samvinnu allra til að góður árangur náist í skólastarfinu.

Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekin áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi.

 • Andlegt einelti felst m.a. í stríðni, útilokun, hótunum eða höfnun.
 • Líkamlegt einelti getur verið barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi.
 • Munnlegt ofbeldi getur m.a. falist í uppnefnum, stríðni, hvísli um fórnarlambið eða upplognum sögum.
 • Efnislegt ofbeldi er m.a. þegar eigum er stolið eða eyðilagðar.
 • Með félagslegu ofbeldi er fórnarlambið m.a. skilið út undan eða þarf að þola svipbrigði, augngotur eða þögn.
 • Í rafrænu ofbeldi felast m.a. illkvittin skilaboð á samfélagsmiðlum, fórnarlamb er útskúfað frá hópum á netsíðu eða tekið út af vinalista og myndum eða myndböndum er dreift.

Um er að ræða einelti ef einstaklingi líður illa vegna þess að hann verður endurtekið fyrir einhverju ofantöldu eða annarri niðurlægjandi áreitni.

Ofbeldi er vísvitandi meiðandi hegðun eða vítavert tillitsleysi þar sem einstaklingur eða hópur beitir valdi sem meiðir eða niðurlægir aðra.

Að þekkja einelti
Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.
Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn...

 • vill ekki fara í skólann.
 • kvartar undan vanlíðan á morgnana.
 • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
 • fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur.
 • missir sjálfstraustið.
 • einangrast félagslega.
 • neitar að segja frá hvað amar að.
 • verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
 • sýnir ýkt viðbrögð við áreiti.
 • kemur heim í öllum hléum í skólanum.
 • vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum.

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að nemandanum líði illa er mikilvægt að kanna málið og hafa samband við stjórnendur, námsráðgjafa eða umsjónakennara viðkomandi nemanda.

Ábyrgð
Allir þeir sem verða vitni að, vita af eða hafa sterkan grun um einelti skulu láta vita af því eða bregðast við á annan hátt.

Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum eiga skólastjórnendur að vinna að lausn málsins. Leita skal aðstoðar námsráðgjafa og annars fagfólks eftir þörfum. Annað starfsfólk, foreldrar og nemendur geta aðstoðað við lausn mála.

Hvert á að leita?
Ef grunur er um einelti má leita til:

 • starfsmanns í skólanum sem viðkomandi þekkir og vill leita til.
 • námsráðgjafa.
 • skólastjórnenda.
 • eða senda skilaboð til námsráðgjafa á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og þeir skoða þá málið eða koma boðunum til réttra aðila.

Aðgerðaáætlun

 • Allir nemendur skulu fræddir um stefnu skólans um viðbrögð við einelti, t.d. í umsjónartímum, á nýnemadegi og annars staðar þar sem það á við: Einelti og ofbeldi leyfist ekki.
 • Starfsmenn skólans skulu fræddir um stefnu skólans um viðbrögð við einelti.
 • Ávallt sé lögð áhersla á góð samskipti innan skólans.
 • Að brýnt sé fyrir nemendum að þegar ágreiningur kemur upp þeirra á milli sé rétt að ræða málin og reyna að komast að málamiðlun og fá aðstoð til þess frá öðrum ef á þarf að halda.
 • Nemendur og starfsmenn séu hvattir til að láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi, öllum á að geta liðið vel í skólanum og njóta virðingar sem einstaklingar.
 • Nemendum og starfsmönnum sé gerð grein fyrir því að ef þeir segja frá því að einhverjum líði illa vegna eineltis eða annars ofbeldis sé það trúnaðarmál.
 • Nemendur og starfsmenn séu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita.
 • Nemendum sé gerð grein fyrir því að það að skilja útundan og hunsa er jafnmikið einelti og að hæðast að eða berja.
 • Allir foreldrar/forráðamenn fái upplýsingar um stefnu skólans í eineltis- og ofbeldismálum í upphafi skólagöngu barna sinna og séu hvattir til að leggja skólanum lið.
 • Foreldrar séu beðnir að láta börn sín vita að þeir styðji stefnu skólans og vilji hvorki að þau séu lögð í einelti, leggi aðra í einelti né séu áhorfendur að einelti eða ofbeldi.
 • Foreldrar séu hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólastjórnendur ef þeir fá grun um einelti eða ofbeldi í skólanum.
 • Kanna skal líðan nemenda reglulega.
 • Áætlun um viðbrögð við einelti verði kynnt einu sinni á önn á skjávarpa í sal.
 • Þegar verið er að rannsaka eineltismál sé þolandi upplýstur um gang mála og fái allar upplýsingar um málið.

Síðast endurskoðað í janúar 2020.

Forvarnastefna

 

Forvarnastefna

Forvarnafulltrúi
Sálfræðingur


Meginmarkmið:

 • Að nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja tileinki sér heilbrigða lífssýn og vímulausan lífsstíl.

Deilimarkmið:

 • Að styrkja sjálfsmynd nemenda.
 • reglur skólans um meðferð og neyslu áfengis og annarra vímuefna séu virtar í húsakynnum og á lóð skólans, á skemmtunum og ferðalögum á vegum skólans.
 • Að allir nemendur skólans séu upplýstir um skaðsemi vímuefna á líf og heilsu.
 • Að vinna að forvarnastarfi með foreldrum/forráðamönnum nemenda.
 • Að taka þátt í forvarnastarfi sveitarfélaganna.

Aðgerðaráætlun:

 • Forvarnafulltrúi starfar við skólann og vinnur að skipulagi forvarnastarfs með stjórnendum og námsráðgjöfum og er félagslífsfulltrúa og nemendum til aðstoðar varðandi skipulagningu skemmtana.
 • Forvarnafulltrúi hefur samráð við félagsmálayfirvöld í sveitarfélögunum á Suðurnesjum um málefni nemenda er tengjast neyslu vímuefna og kemur þeim í viðurkenndan farveg.
 • Í skólanum er boðið upp á þjónustu sálfræðings sem nemendur geta leitað til.
 • Skólinn hefur samstarf við lögreglu í tengslum við skemmtanir á vegum skólans.
 • Í öllu forvarnastarfi skólans er lögð áhersla á að nemendur taki gagnrýna afstöðu til fíkniefnaneyslu.
 • Forvarnavika í skólanum er á haustönn í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu. Þá eru skipulagðir fyrirlestrar og aðrir viðburðir.
 • Ef ósjálfráða nemendur eru sýnilega undir áhrifum vímuefna á skemmtunum eða ferðalögum skólans hefur forvarnafulltrúi samband við foreldra og biður þá að ná í barn sitt. Sjálfráða nemendum sem eru sýnilega undir áhrifum vímuefna á skemmtunum er boðið að hringja og láta ná í sig en er vísað burt af skemmtuninni. Nemendur þurfa í kjölfarið að funda með forvarnafulltrúa. Við brot á reglum skólans er nemandi tímabundið útilokaður frá skemmtunum og ferðalögum á hans vegum.
 • Nemendur á fyrsta námsári eru í námsáfanga þar sem meðal annars er fjallað um sjálfsmynd, sjálfsstyrkingu, einelti og fordóma.
 • Í öllum áföngum er sjálfsmynd nemenda styrkt með því að kennarar hvetja þá til dáða, gefa góð ráð og hrósa fyrir vel unnin verk.
 • Skólinn styður við bakið á þeim nemendum sem þurfa úrræði vegna sérstakra aðstæðna.

Síðast endurskoðað í október 2019.

Manneldisstefna

 

Manneldisstefna

Meginmarkmið:
Að nemendur og starfsmenn Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafi í mötuneyti FS aðgang að fjölbreyttu og hollu fæði samkvæmt manneldismarkmiðum Manneldisráðs til að stuðla að eigin heilbrigði.

Deilimarkmið:

 • Að nemendum og starfsmönnum skólans standi alltaf til boða morgunverður og heitur hádegisverður sem eru samsettir samkvæmt manneldismarkmiðum Manneldisráðs.
 • Að mötuneyti hafi starfsleyfi opinbers eftirlitsaðila og starfi samkvæmt reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.
 • Að nemendur þekki mikilvægi hollrar næringar samkvæmt manneldismarkmiðum og hafi tækifæri til að nýta sér þá þekkingu til að efla eigið heilbrigði.
 • Að nemendur og starfsmenn hafi tækifæri til að njóta matar í góðu umhverfi.

Aðgerðaáætlun:

 • Á vinnusvæði mötuneytis skal aðeins vera starfsfólk þess.
 • Að lögð sé áhersla á góð samskipti og kurteisi allra í mötuneyti og matsal.
 • Að gera matsali snyrtilega.
 • Að bjóða nemendum og starfsmönnum hafragraut á hverjum morgni.
 • Að tryggja að nemendur og starfsmenn hafi greiðan aðgang að köldu vatni, t.d. í þar til gerðum vélum.
 • Að skólinn sé heilsueflandi framhaldsskóli og vinni samkvæmt því.
 • Að hafa næringarfræðiáfanga í boði á hverri önn fyrir alla nemendur.
 • Að fjalla um næringu og heilbrigði í lýðheilsuáfanga.
 • Að hafa veggspjöld með upplýsingum um næringu og hreyfingu sýnileg á veggjum skólans.

Síðast endurskoðað í febrúar 2017.

Umhverfisstefna

 

Umhverfisstefna

Meginmarkmið:
Að skapa umhverfisvænt en jafnframt hlýlegt umhverfi sem bæði nemendur og starfsfólk skólans beri virðingu fyrir og finnist gott að starfa í.

Deilimarkmið:

 • Að umgengni verði til fyrirmyndar í húsakynnum skólans og á lóð hans.
 • Að við innkaup verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða.
 • Að nota sem minnst af skaðlegum efnum og sem mest af endurnýtanlegum.
 • Að lágmarka notkun á pappír.
 • Að úrgangur sem til fellur í rekstri skólans sé endurunninn eða endurnýttur eftir því sem við verður komið.
 • Að tryggja að spilliefnum sé fargað á viðeigandi hátt.
 • Að lágmarka notkun einnota matar- og drykkjaríláta.
 • Að efla umræðu og fræðslu í umhverfismálum.
 • Að hvetja nemendur og starfsfólk til að ganga og hjóla í skólann eða nota almenningssamgöngur eftir því sem við verður komið.

Aðgerðaáætlun:

 • Hvetja kennara og nemendur til að lágmarka ljósritun og ljósrita og skrifa beggja vegna á pappír.
 • Koma á sorpflokkunarkerfi við skólann.
 • Hreinsa reglulega tyggjóklessur af skólalóð.
 • Hafa mottur sem taka við bleytu og óhreinindum við innganga skólans.
 • Við ræstingu verði einungis notuð umhverfisvæn efni.
 • Að skólinn standi fyrir fræðslu um umhverfismál fyrir nemendur og starfsfólk eftir því sem kostur er.
 • Hvetja nemendur og starfsfólk til að ganga vel um sameiginleg rými.

Síðast endurskoðað í janúar 2017.

                                               Heilsueflandi2019                         

                                   Erasmus
SFR2018 SFR2017 SFR2016 SFR2015 SFR2014