Virðing-Samvinna-Árangur

Read in english  EnglishVeftré - Skrifstofa

 

 

 

Opið hús og tónlist á afmælishátíð

Haldið var upp á 40 ára afmæli skólans með opnu húsi laugardaginn 24. september.  AfmaelishatidH2016 04

Markmiðið með opna deginum var fyrst og fremst að bjóða gestum í heimsókn.  Gestir gátu skoðað skólann og þá aðstöðu sem hér er að finna.  Einnig lágu frammi myndaalbúm, árbækur og fleira úr sögu skólans og nýttu gestir sér það og þótti greinilega gaman að rifja upp gamla tíma.

Það var fyrst og fremst létt yfir afmælishátíðinni sem hófst kl. 13:00 með því að Stórsveit Suðurnesja lék nokkur lög á sal.  Sveitina skipa fyrrum meðlimir léttsveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en stjórnandi þessar frábæru sveitar er Karen Sturlaugsson.  Það er auðvitað sérstaklega gaman fyrir okkur að allir meðlimir Stórsveitarinnar eru fyrrum nemendur skólans.  Formleg dagskrá hófst síðan á sal kl. 14:00 en kynnir var Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.  Kristján Ásmundsson skólameistari flutti stutta tölu og sagði frá stofnun skólans árið 1976 og hvernig hann hefur þróast á síðustu 40 árum.  Kristján afhenti síðan Ægi Sigurðssyni raungreinakennara gjöf frá skólanum en Ægir hefur starfað við skólann frá upphafi og gegnt þar ýmsum ábyrgðarstöðum.  Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði afhenti síðan málverkið Breath eftir japanska listamanninn OZ-Keisuke Yamaguchi en það varð til á listahátið sveitarfélagsins.  Garður hefur fært Listasafni Reykjanesbæjar verkið að gjöf en það verður geymt og sýnt í skólanum.  Þá var sagt frá undirbúningi að stofnun hollvinasamtaka skólans en stefnt er að því að stofnfundur verði í nóvember.  Söngsveitin Drengjabandið skemmti gestum milli atriða en hana skipa nokkrir kennarar og starfsmenn skólans en þeir hafa verið duglegir við að syngja á skemmtunum á vegum skólans undanfarin ár.

Að lokinni þessari dagskrá var gestum boðið upp á veitingar en á meðan var flutt tónlist en það voru núverandi og fyrrum nemendur sem sáu um tónlistarflutninginn.  Davíð Ólafsson og Stefán Helgi Stefánsson sungu við undirleik Helga Más Hannessonar.  Systkinin Smári Guðmundsson og Fríða Dís Guðmundsdóttir fluttu síðan nokkur af sínum lögum en þau hafa getið sér gott orð með hljómsveitinni Klassart.  Valdimar Guðmundsson söng síðan nokkur lög en með honum lék Ásgeir Aðalsteinsson á gítar en þess má geta að Valdimar spilaði einnig með Stórsveitinni sem áður var nefnd.  Davíð, Helgi Már, Smári, Fríða Dís og Valdimar eru öll fyrrverandi nemendur skólans og það var því vel við hæfi að nýnemi í skólanum lyki dagskránni en það gerði Dagný Halla Ágústsdóttir með glæsibrag.

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna og vonum að þeir hafi notið dagsins með okkur.  Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá marga fyrrverandi nemendur og kennara skólans á þessum skemmtilega degi.

Hér er veglegt myndasafn frá afmælishátíðinni og hér má sjá gamlar myndir og blaðaúrklippur úr sögu skólans.

AfmaelishatidH2016 01

AfmaelishatidH2016 06

AfmaelishatidH2016 03

AfmaelishatidH2016 05

                                               Heilsueflandi2019                         

                                   Erasmus
SFR2018 SFR2017 SFR2016 SFR2015 SFR2014