Hávær Dimissio

DimissioH2015 Frett1Föstudaginn 27. nóvember buðu væntanlegir útskriftarnemendur til hátíðar á sal þegar komið var að dimissio þessa önnina.

Þá kveður útskriftarhópurinn kennara og nemendur skólans með ýmis konar uppákomum. Að þessu sinn var fyrirmyndin þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna, hafnabolti.  Hópurinn hafði lagt heilmikið í undirbúninginn og keypt alvörubúninga sem voru merktir skólanum í bak og fyrir og auðvitað gleymdust derhúfurnar ekki!

Hópurinn byrjaði á því að skemmta samnemendum sínum á göngum og láta tónlist glymja á sal skólans. Það fór eiginlega ekki framhjá nokkrum manni enda var hópurinn óvenjuhávær að þessu sinni. Síðan var komið að dagskrá á sal. Það er orðin hefð fyrir því að á dimissio sé boðið upp á stuttmynd um lífið í skólanum en þar var sýnt frá kennslu í ýmsum greinum. Þar kom skólameistari viðstöddum í opna skjöldu í litlu en mikilvægu gestahlutverki og vann leiksigur. Að lokinni kvikmyndasýningunni fór fram verðlaunaafhending en þar fékk útskriftarhópurinn langþráð tækifæri til að veita kennurum sínum viðurkenningar fyrir frammistöðu sína. Þar komu m.a. við sögu besti vinurinn, drottningin og kóngurinn, þolinmóðasti kennarinn og sá best klæddi. Hápunkturinn var svo þegar besti kennarinn var valinn og varð Gunnlaugur Sigurðsson stærðfræðikennari fyrir valinu að þessu sinni. Þar kom innblásturinn úr hafnaboltanum og Gunnlaugur hlaut titilinn Most Valuable Teacher. Þessi útskriftarhópur breytti síðan út af vananum og veitti nokkrum samnemendum sínum misgæfuleg verðlaun.

Um kvöldið var síðan hin svokallaða síðasta kvöldmáltíð en þá borða útskriftarnemendur og starfsfólk skólans saman og gera sér glaðan dag.

Hér eru nokkrar myndir frá Dimissio.

DimissioH2015 Frett2

DimissioH2015 Frett3

DimissioH2015 Frett4